Að tengja saman

Fyrir margt löngu var ég spurð hvernig ég skilgreindi sjálfa mig. Ég sagðist vera tengill, það er manneskja sem væri flínk í að tengja saman fólk við fólk og fólk við hugmyndir. Ég fékk stuttan tíma til að hugsa mig um og þetta var það skásta sem ég ég kom upp með. Reyndar er ég á því að þetta sé í sjáflu sér nokkuð rétt. Í vikunni ákvað ég að nýta mér samskiptamiðilinn fésbók og búa til svona tengla síðu. Ég ákvað að búa til síðu sem tengir leikskólaáhugafólk við hugmyndir út í hinum stóra heimi og í okkar litla heimi.

Ég held að ég sé ekkert sérstaklega að ýkja þegar ég segist vera einn helsti sérfræðingur landsins um leikskólamál. Eftir að hafa verið virk innan leikskólaheimsins í næstum 35 ár hefur safnast upp hjá mér reynsla sem ég er vel aflögufær af en svo er ég svo heppin að vera endalaust forvitin og því heldur áfram að safnast í reynsluhólfið. Yfirleitt á ég nokkuð gott með að ræða við alla sem verður auðvitað til þess að ég fæ margt að vita. Vissulega hef ég líka sterkar skoðanir og ekki alltaf að allir séu sammála mér enda þarf fólk ekkert að vera það. En þrátt fyrir að vera ekki alltaf í alfaraleið með skoðanir hefur  mér nú tekist ágætleg að lynda við flesta leikskólakennara. Kannski af því að það er hægt að fá mig til að skipta um skoðun. En kannski aðallega vegna þess að við eigum flestir sameiginlegt áhugamál sem við getum sameinast um, nefnilega heill og framtíð leikskólans og leikskólabarna og það er ekki svo lítið.

En svo ég snúi mér aftur að fésbókarsíðunni. Á henni er ætlunin að safna áhugaverðum myndböndum, heimasíðum og greinum. Hugmyndin er að búa til flokk (status) og undir honum sem ummæli slóðir inn á ýmsar síður. Þegar eru komnir flokkar um útinám, náttúruleg leiksvæði, rannsóknir, einhverfu, sjálfbærni, sköpun, náttúrfræði, læsi, leik barna, karlmenn í leikskólum og fleira og fleira. Nú þegar eru yfir 450 skráðir á síðuna. Hún er opin öllum og vona ég að hún nýtist sem flestum.

Hér er slóðin Leikur og leikskólastarf og hvaðeina


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Svakalega er ég ÁNÆGÐ með þig, að opna fyrir rennsli úr viskubrunnum stéttarinnar er meira en nauðsynlegt!! Takk! :D

Ingibjörg Einarsdóttir (IP-tala skráð) 25.3.2012 kl. 10:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband