Sögur af fjallafólki

Á sama tíma í fyrra var ég að leysa af í leikskóla. Eitt af verkum mínum var að skrifa á heimasíðu leikskólans. Í leikskólum eru staðgóð þekking á háttum og siðum jólasveina alveg nauðsynleg. Í fyrra var það mitt hlutverk að skrifa daglegan pistill um fjallabræður og helstu afreksverk þeirra. Til að geta fjallað um þá er nauðsynlegt að afla sér staðgóðrar þekkingar á jólasveinum. Lesa jólasveinatíðindi og jafnvel hætta sér í Grýluhelli. Þar sem ég er ekki að staðaldri í leikskólanum ákvað ég að blogga um sveinana. Maður verður víst að halda sér við. 

Hvaða undirstöðuþekking er þetta sem er nauðsynleg? Í fyrsta lag verður maður að vita hvað kauðar heita, í hvaða röð þeir koma, hver áhugamál þeirra eru og svo framvegis. Alveg eins og í öðru starfi í leikskólum verður maður að reyna að bera kennsl á styrkleika drengjanna. Auðvitað væri gott ef þau skiptust á að mæta til byggða dætur og synir Grýlu og Leppalúða en þannig er það víst ekki enn. Sagan segir að þau eigi nokkuð af dætrum, þær heita meira að segja ekki ólíkum nöfnum og drengirnir. Ef til vill segi ég seinna sögu af stelpunum þeim sem sjaldan drifu sig á bæina heim. Það er líka alveg nauðsynlegt að kunna jólasveinakvæði Jóhannesar í Kötlum. Kvæðið er raunar Gagn og gaman okkar jólasveinaáhugafólks.

Stekkjastaur 

Í nótt sem leið kom fyrsti sveinninn til byggða, Stekkjastaur heitir hann. Hefur margoft verið tekinn fyrir við tilraunir til innbrots í MS og Baulu hér sunnan heiða. Hann reyndi einu sinni að ráða sig til starfa hjá mjólkursamlaginu á Sauðárkróki, var fljótt rekinn vegna þess að mjólkin rýrnaði svo á hans vakt og hann fitnaði víst líka einhver ósköp. Fötin sprungu öll utan af honum. Um tíma var hann settur í að tappa undanrennu á fernur, merkilegt frá að segja þá var víst enginn rýrnun þar.    

Stekkjastaur hefur horft af áhuga á allar fréttir frá Össuri um gervifætur, hann er sérstakur áhugamaður um hlauparann, Oscar Pistorius og afrek hans. Stekkjastaur hefur velt fyrir sér hvort mjólkurstuldur í fjósum landsins bænda verði ekki auðveldari ef hann ætti par af slíkum fótum (hann er löngu búin að gefast upp á ærmjólk). Sveinki hefur víst mikið hugleitt að panta sér tíma hjá Össur en hefur ekki enn látið verða af þvi. Hinsvegar stal hann frá þeim fótum fyrir nokkrum árum á ferð sinni um borgina. Þeir passa ekki alveg og þess vegna er hann enn soldið valtur á fótunum.

Giljagaur 

Bróðir hans, sá sem kemur í nótt heitir Giljagaur, hann er líka fyrir mjólkurvörur (eins og þeir bræður fleiri), hann er hinsvegar ekkert fyrir mjólkina sjálfa, vill fá froðu og svo hefur hann hin síðari ár vanið sig á jógúrtát. Helst vill hann það vel sætt með ekta sykri. Hann er glöggur á fólk og kann þá list að fá það  til að tala saman og skemmtilegast finnst honum þegar það fer í hár saman. Einstaka sinnum skýtur hann inn lykilspurningum (eða nefnir það sem er heitast í umræðunni í það skiptið og ég skal segja ykkur að hann hefur úr nógu að velja þessa daga, fullt af eldfimu umræðuefni). Það er segin saga fólkið verður mjög upptekið hvert af öðru (og aðallega sjálfu sér), fer í kapp við að koma sínum sjónarmiðum að og steinhættir að veita umhverfinu eftirtekt. Giljagaur bíður færis og þegar samræðan er orðin verulega heit skýst gaurinn beint í ísskápinn og ryksugar hann. Hann skilur þó allt grænmeti eftir, hefur ekki mikla list á því. Hann lætur sig svo hverfa og hlær tröllslega að liðinu sem talar og talar, hlustar ekkert en er rúið inn að skinni á meðan. Grýla segir að þeir bræður Stekkjastaur og Giljagaur eigi að segja bræðrum sínum sem á eftir koma frá ástandi þjóðmála. Það er víst til að þeir geti sagt rétta brandara. Í ár hrista þeir víst soldið hausinn.  

Jóhannes úr Kötlum samdi kvæðið um sveinana sem margir foreldrar fara með börnum sínum. Ljóðið  byrjar ´"Segja vil ég sögu af sveinunum þeim sem brugðu sér hér forðum á bæina heim.   

Þeir uppi á fjöllum sáust,
- eins og margur veit, -
í langri halarófu
á leið niður í sveit.

Grýla var þeirra móðir
og gaf þeim tröllamjólk,
en pabbinn Leppalúði,
- það var leiðindafólk

Stekkjastaur kom fyrstur,
Stinnur eins og tré.
Hann laumaðist í fjárhúsin
Og lék á bóndans fé

Hann vildi sjúga ærnar,
-þá varð þeim ekki um sel,
Því greyið hafði staurfætur,
-það gekk nú ekki vel.

Giljagaur var annar,
með gráa hausinn sinn.
- Hann skreið ofan úr gili
og skauzt í fjósið inn.

Hann faldi sig í básunum
og froðunni stal,
meðan fjósakonan átti
við fjósamanninn tal.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband