Svartur á leik

Samband sveitarfélaga hefur í áróðurskini og til að reyna að rifta samstöðu leikskólakennara sent leikskólastjórum bréf um hvernig sambandið túlkar vinnulag í verkfalli. Hvernig hægt sé draga sem mest úr áhrifum þess. Í bréfinu er að finna svo mikla vanþekkingu á eigin samningum að það er eiginlega pínlegt. Fyrir mörgum árum sömdu nefnilega leikskólakennarar og sambandið um starfslýsingar sem unnið hefur verið eftir í leikskólum landsins. Í starfslýsingunum  kemur skýrt fram hvert hlutverk deildarstjóra er. Þar segir m.a. að deildarstjóri: 

  • Ber ábyrgð á stjórnun, skipulagningu, framkvæmd og mati starfsins á deildinni.
  • Annast daglega verkstjórn á deildinni og ber ábyrgð á að miðla upplýsingum innan deildarinnar, milli deilda leikskólans og milli leikskólastjóra og deildarinnar.

En í bréfi sambandsins um störf deildarstjóra segir:

  • Leikskólastjórum ber að sjá til þess að allar deildir séu starfandi eftir sem áður með því starfsfólki sem ekki er í verkfalli. Þótt deildarstjórar og aðrir leikskólakennarar leggi niður störf hefur leikskólastjóri eftir sem áður óskoraðan stjórnunarrétt til að skipuleggja og stýra verkum undirmanna sinna, hann getur flutt þá milli deilda ef þurfa þykir og gert aðrar stjórnunarlegar ráðstafanir vegna starfseminnar.

Að ganga í þessi störf er í klárt verkfallsbrot, enginn efast um að lækningaforstjóri hefur stjórnunarvald yfir t.d. deildarlæknum, en að hann hafi með því leyfi til að skipa öðrum að vinna störfin þeirra er algjör firra sem flestir sjá og skilja.

Hingað til hefur íslenskt samfélag að mestu kunnað að umgangast verkfall. Ófyrirleitni eins og birtist í bréfi sambandsins er sjaldséð en sýnir hvað sambandið er í raun hrætt við verkfallið. Það sést á hvernig það reynir að sundra samstöðunni og egna saman foreldrum, leikskólastjórum og leikskólakennurum með öllum tiltækum ráðum.

Einhver hefur gleymt að kenna sambandsfólkinu grundvallaratriði í skák, nefnilega að þegar hvítur er búinn að leika á svartur leik. Sambandsfólkið gleymir líka að það þarf að hugsa nokkra leiki fram fyrir sig. (Prívat er ég svolítið hissa því ég veit persónulega að þar innan dyra eru ágætir skákmenn). Ég er hissa á að sambandsfólkið hefur ekki íhugað að þegar verkfalli er lokið þarf fólk að geta sest niður og komið fram við hvert annað með virðinu og vinsemd. Unnið saman. Sú aðferðafræði sem nú er upp og sem ég held að hljóti að vera rakin til öfgamanna í Ameríku hún er ekki til þess fallin að skapa öryggi og traust í samskiptum til framtíðar. Ég legg til að Sambandið og þeir sem eru í forsvari fyrir það endurskoði afstöðu sína.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sem fyrrverandi grunnskólakennari með reynslu af síðasta verkfalli get ég vottað það að í samninganefnd SÍS situr vont og illa innrætt fólk, hvers eina markmið er að valda úlfúð og leiðindum þangað til ríkisstjórnin sér sig tilneydda til að afnema mannréttindi launafólks með lögum. Ég held að þetta fólk hljóti að sitja heima hjá sér á kvöldin og hlægja yfir því hvað það er gaman að vera vondur. Það að sveitarstjórnarmenn og þá sérstaklega þeir sem sitja í stjórn SÍS skuli láta þetta viðgangast og taka þátt í þessu lýsir því helst hvað stjórnmál eru mannskemmandi og að þangað leiti helst skemmt fólk. Það sem ekki er skemmt fyrir skemmist á nokkrum mánuðum í stjórnmálum sbr. Borgarahreyfinguna.

Daníel (IP-tala skráð) 18.8.2011 kl. 08:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband