Pólitísk og söguleg greining

Borgin stendur frammi fyrir risavöxnu vandamáli, það þarf að finna peninga til að stoppa í milljarða gat. Öllum er gert að skera niður og spara. Ekkert svið er undanskilið, ekki þau sem sviðu fyrir góðærið og ekki þau sem dönsuðu í góðærinu.
 l
Mannfjöldaspár, litlir leikskólar og barnabomban 
Fyrir nokkrum árum var gerð mannfjöldaspá fyrir Ísland, þar var talið að ákveðnu jafnvægi væri þegar náð og næstu 45 ár myndu fæðast um 4500 börn í árgangi, svo kom kreppan og mannfjöldaspár alla vega fyrir Reykjavík stóðust ekki, þar sem fólk virðist hafa ákveðið að nota tímann og drífa sig í barneignir og samtímis flytja til borgarinnar. Afleiðingin, nú eru að koma inn í leikskólana stærstu árgangar í langan tíma (munurinn er um 300 börn). Sumir bæjarhlutar eru ver staddir en aðrir með leikskóla. Þeir byggðust upp þegar það var í tísku að byggja litla leikskóla. Helst ekki stærri en 3ja deilda. Á undanförnum árum hefur verið leitast við að stækka þessa leikskóla, bætt við deild og deild. En það dugir ekki þegar kemur að þessum risaárgöngum.

Enginn vill hverfa til þess tíma þegar börn fengu hálfan dag í leikskóla og hinn helminginn leysti ömmur eða dagmæður eða .... einhver. Það var meira að segja til orðatiltæki fyrir tímann í hádeginu þegar allir voru að svissa, fyrir hádegisbörnin á leið til dagmömmu og eftirhádegis börnin á leið í leikskólann. Það var rætt um þjóðflutningana miklu. Hagfræðistofnun Háskólans var fengin til að reikna hvað þetta var þjóðhagslega óhagkvæmt. Smá skref voru tekin í átt til úrbóta, þar til kom að Reykjavíkurlistanum sem ákvað að stíga skrefið til fulls og afnema tvöfalda kerfið.

Öllum foreldrum var nú boðið upp á heilsdagsleikskóla. Og kerfið óx hratt, bæði var mikið byggt og að hluta til vegna þess að vistunartími barna fór á skömmum tíma næstum úr böndum. Kerfið óx mun hraðar en tók að mennta fólk til að vinna í því. Svo kom góðærið og þá hófst alvöru kreppa leikskólanna. Eitt af því sem borgin gerði var að borga það sem kallast neysluhlé, með því var reynt að halda í það fólk sem fyrir var í leikskólanum og kannski gefa þeim færi á að ná í nýtt. Þetta var uppbót fyrir lálaunastéttirnar í leikskólanum.

Einn angi gamla kerfisins var að á lóðum um allan bæ voru byggðir leikskólar hlið við hlið, Lækjaborg og Laugaborg, Sunnuborg og Holtaborg, Hagaborg og Ægisborg. Annar var fyrir börn einstæðra foreldra og námsmanna hinn þar voru börnin allan daginn og hinn var hálfsdagsleikskóli fyrir börn gifta fólksins.

Þess vegna er það nú sem skólar eru því sem næst á sömu lóðinni og þess vegna er kannski ekkert endilega skrýtið að einhverjum hafi dottið í hug að það væri skynsamlegt að leggja þá saman, gera úr þeim eina einingu og spara. Það virðast nokkuð augljósir kostir. Meira segja fyrir kreppu var farið að örla á þeirri umræðu.

Kreppan 

Svo kom kreppan og það þurfti að spara, ekkert fé til að halda úti starfinu, ekkert fé til framkvæmda, hvað er til ráða?

Raunar má segja að vandamálið sé tvíþætt, annarsvegar er það kostnaðurinn af kerfinu eins og það er, gatið sem þarf að fylla vegna niðurskurðar og hins vegar eru það yngstu börnin sem bíða á handfangi leikskólanna.

Þegar pólitíkusar lögðust yfir málið virðist sem nokkur atriði hafi staðið upp úr. Atriði sem e.t.v. virðast ekki galin við fyrstu sýn, en eru kannski eins miklar draumalausnir þegar að er gáð. Vel að merkja pólitíkusarnir segja að þeir ætli að verja launin í leikskólunum, þannig að einhverra annarra ráða varð að leita, og þá duttu þeir niður á alla vega sameiningalausnir, sumar alveg galnar. Ljóst er að með því að fækka stjórnendum verulega má ná fram nokkrum sparnaði.

Fyrst er þetta með sameiningarnar. Hefði nú fólk aðeins setið á sér og valið að ræða þær, bara á milli skóla á sama skólastigi þá hugsa ég að það hefði verið aðeins meiri ró yfir mannskapnum. Þó enginn hefði verið glaður með þá ákvörðun þá hefði fólk skilið sumar sameiningar, sérstaklega ef til þeirra hefði verið vandað og settur með stuðningur í anda breytingarstjórnunar.  En nei, með opnun í lögum sem borgin velur að túlka eftir sínu höfði (eins og sveitarfélögin mörg), þá ákvað hún að skella saman leik- og grunnskólum. Ekki vegna þess að það ætti að fara af stað með þróunarverkefni, heldur af því að víða í grunnskólum er töluvert pláss sem er illa nýtt. Ef farið er með elstu börn leikskólans inn í grunnskólann (í nafni einhvers sem snjallir spunameistarar hefðu fundið upp) er auðvitað hægt að leysa hitt vandamál borgarinnar, nefnilega yngstu börnin, (sem er auðvitað líka ábyrgð okkar allra, ætla ekki að halda öðru fram), með því er tekinn kúfur af leikskólanum og þá er hægt að taka inn litlu börnin sem bíða. Viðkomandi leikskólar yrðu þá í reynd meira og minna ungbarnaskólar eða yngri deilda leikskólar.

Ég skil þetta sjónarmið og ég skil þessa pælingu sérstaklega vegna þess að ég er ein þeirra sem er fylgjandi því að mjög ung börn sæki leikskóla. Í dag gafst mér smá færi á að skoða fermetratölu í nokkrum grunnskólum og deila í með nemendafjölda en það er sú aðferð sem notuð er til að ákveða fjölda barna í leikskóla.  Ef leikskóli er t.d. 590 fermetrar er pláss í honum fyrir um 90 börn (gæti hlaupið til eða frá um nokkur börn  eftir hvort leikskóinn er gamall eða nýr). Þegar ég notaði mælistikuna á nokkra þá grunnskóla þar sem hafa komið fram hugmyndir um sameiningu við leikskóla kemur ákveðið mynstur í ljós.

Fermetrar í grunnskólum og sameining grunnskóla 

Skólarnir sem hugmynd er um að sameina leikskólum  eru með töluvert fleiri fermetra á nema en aðrir skólar. Fyrir nokkrum árum var meðaltal fermetra á nemanda í grunnskóla borgarinnar um 12. Þessir skólar eru allir nokkuð yfir það - eða gætu verið það með smá tilfærslum og sameiningum við aðra grunnskóla.

Það má nefnilega ekki gleyma í umræðunni að það stendur líka til að sameina og leggja niður grunnskóla. Það virðist hafa verið röng ákvörðun hjá borginni fyrst eftir yfirtöku grunnskólans á sínum tíma að byggja marga litla grunnskóla. Þessir skólar virðast margir eiga í erfiðleikum með að bjóða nemendum sínum upp á gott og vel útfært nám í dag, sérstaklega í hverfum sem eru að eldast og börnum að fækka í.  Með því að stækka skólana (með því að leggja niður aðra nálæga)  gefast fleiri tækifæri til að bjóða nemum upp á fjölbreytt nám. Sem eru vissulega gild skólarök.  

Dýrt vannýtt húsnæði

En horfum aftur á skólana sem eru með yfirdrifið rými sem borgin hefur sannarlega fjárfest í og vill nýta börnum sínum til góðs. Auðvitað liggur það í augum upp að það er kostur að færa leikskólabörnin þangað á meðan kúfurinn er. En það liggur e.t.v. ekki alveg eins í augum upp fyrir leikskólafólk að því þurfi að fylgja að leikskólinn og grunnskólinn verði sameinaðir. Getur ekki alveg eins verið lausn að leigja leikskólanum tímabundið húsnæði grunnskólans og gera honum þannig kleift að halda elstu deildunum og mæta þörfinni fyrir rými fyrir elstu börn leikskólans (ja eða ungabörnin). Það kemur nefnilega að því að grunnskólarnir þurfa rýmið sitt aftur, þessir árgangar eiga nefnilega líka eftir að fara í grunnskóla. Þá verður fjárhagsástand samfélagsins vonandi orðið svo gott að framkvæmdir verða hafnar aftur á vegum t.d. borgarinnar. Með því að leigja leikskólanum hluta grunnskólanna er líka verið að stuðla að því að hægt sé að byggja skemmtilega brú sem getur e.t.v. seinna leitt til sameiningar skólastiganna. En í guðanna bænum geymið það þangað til að það er sannarlega ekki kreppuúrræði heldur metnaðarfullt tilrauna- og þróunarstarf. 

Uppsagnir 

Út um allan bæ eru leikskólastjórar að velta stöðu sinni fyrir sér, Það er ljóst að ekki verður farið í allar þær tillögur sem fyrir liggja, einfaldlega vegna þess að sumir skólar hafa fengið fleira en eina og tvær tillögur sem ganga í mismunandi áttir. Ég hef hins vegar velt fyrir mér hvað gerist ef haldið verður áfram með sameiningarnar og þeim haldið til streitu (sem ég heyri að margir leikskólastjórar reikna fullkomlega með, eru farnir að taka til á skrifstofunum og í tölvunni). Hvað þá?

Er jafnræði fólgið í að segja öllum leikskólastjórum upp? 

Segjum sem svo að ákveðið verði að fara út í 40 (af um 78 leikskólum) sameiningar leikskóla- stjórum fækkað um 20. Þá verða stöður þessara 20 auglýstar og þeim gert að keppa innbyrðis.  Eingöngu vegna þess að þeir eru svo "óheppnir" að vera í vitlausum skólum, hinir eru hólpnir. Eftir að hafa velt málinu fyrir mér er ég að velta fyrir mér hvort ekki sé þá meira jafnræði hjá borginni að segja hreinlega öllum sínum leikskólastjórum upp. Þá sitja allir við sama borð án tillits til þess hvort sameining er í spilunum eða ekki. Það væri líka hægt að binda umsóknir/eða ferlið þannig að leikskólastjórar sem eru starfandi gangi fyrir í þau störf sem auglýst verða. Þá væri hægt að horfa á farsæla og reynda leikskólastjóra - án þess endilega að fylgja þeirri kröfu sem nú er gerð til framhaldsnáms í stjórnun. Ég held t.d. ekki að leikskólastjórar vilji endilega sækja um sína gömlu skóla. Það er oft einmitt gott í breytingarferli og sameiningarferli að fá nýjan stjóra (þó það sé auðvitað ekki algilt frekar en annað). Sjálf hef ég reynslu af því að sameina leikskóla í Reykjavíkurborg og get fullyrt að það getur tekið á og oft ríkir tortryggni í þeim skóla sem er "lagður undir" í garð þeirra sem fyrir eru. Telja viðkomandi stjórnanda vera "þeirra" hinna.

Sjálfsagt eru margir og kannski flestir, ósammála mér, telja að með þessu sé verið að hætta öllu leikskólastarfi í borginni í hættu. Bæði starfsfólk og foreldrar yrðu væntanleg mjög órólegir. EN það er heldur engin að segja að farsælir stjórar fengju ekki "sína" skóla sem þeir hafa e.t.v. lagt blóð svita og tár í við uppbyggingu. En jafnræðið yrði sannarlega meira.

Að lokum hér má sjá tölur um fermetra í nokkrum grunnskólum borgarinnar, meðal annars nokkurra þeirra sem komu fyrir í tillögum borgarinnar. Fermetratalan er miðuð við nemendafjölda í desember 2009.

 

Austurbæjarskóli

12

Húsaskóli

16

Breiðholtsskóli

14

Hvassaleitisskóli

20

Foldaskóli

21

Langholtsskóli

13

Fossvogsskóli

13

Laugarnesskóli

9

Grandaskóli

17

Vesturbæjar 

11

Háteigsskóli

12

Laugalækjarskóli

19

Yfirlit yfir fermetra per nema í nokkrum grunnskólum í Reykjavík
   

  tölur rvk

Þróun fjölgunar 1 árs barna í Reykjvík (um 300 barna munur)

börn 1 árs
 Þróun fjölgunar 1árs barna á landsvísu

Ég hef ekkert fjallað um heildsdagsskólann af hreinum þekkingarskorti á þeim aðstæðum sem þar eru fyrir hendi. En átta mig á að þar er líklega verið að leggja í miklar tilfærslur líka.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elín Erna Steinarsdóttir

,,Þá sitja allir við sama borð án tillits til þess hvort sameining er í spilunum eða ekki. Það væri líka hægt að binda umsóknir/eða ferlið þannig að leikskólastjórar sem eru starfandi gangi fyrir í þau störf sem auglýst verða. Þá væri hægt að horfa á farsæla og reynda leikskólastjóra - án þess endilega að fylgja þeirri kröfu sem nú er gerð til framhaldsnáms í stjórnun". Ég er ekki viss um að það sé raunhæft mat að allir sitji við sama borð og að hægt sá að ganga fram hjá leikskólakennara með stjórnunargráðu, ég tala nú ekki um mastersgráðu. Mér finnst heldur ekki siðlegt að kvelja fleira fólk með óvissu en ,,þörf" er á vegna sameiningar.

Elín Erna Steinarsdóttir, 9.2.2011 kl. 22:15

2 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Samkvæmt lögum er ekki gerð krafa um meistara eða stjórnunarnám, það eru sveitarfélögin sem setja sín eigin viðmið og ef farið er út í slíkar ofurbreytingar er sjálfsagt hægt að gera samþykkt sem tekur til slíks. En Elín, segjum að ég sé leikskólastjóri í tvíburaskóla, ég er með framhaldsnám í stjórnun er farsæll stjórnandi og hef þannig sé allt með mér, við hliðina á mér er annars eins stjórnandi, við höfum báðar unnið fyrir leikskóla Reykjavíkur alla okkar starfsævi og þar af síðustu 25-30 ár sem stjórnendur. Við fáum báðar uppsagnarbréf en ekki leikskólastjórinn sem er búin að ver í 5 ár og er ekki með sömu kvalifikasjónir. Er það réttlæti? Bara af því að viðkomandi er í skóla í hverfi sem ekkert á að gera. Veit ekki. Ef tölur sem hafa heyrst eru einhverstaðar nálægt réttar eru þetta tugir sem fá uppsagnarbréf, skil ekki að það sé eitthvað "ósiðlegra" að segja þeim upp en hinum. Sérstaklega þegar ég held að í reyndinni sértu ekki að "keppa" við þá næstu, þú ert í raun að "keppa" við allar og jafnvel fleiri ef borgin setur ekki einhver viðmið sem gerir þeirra eigin farsælum stjórnendum höfðinu hærra.

Kristín Dýrfjörð, 9.2.2011 kl. 22:31

3 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Það er að segja ef farið verður í þessar breytingar, sýnist málin bara komin svo langt að það getur verið erfitt að bakka, pólitískt.

Svo má vera að þetta verði eins og með fjallið sem fékk jóðsótt.

Kristín Dýrfjörð, 9.2.2011 kl. 22:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband