Sameining eða samrekstur?

Ég staldraði aðeins við heiti starfshópsins sem er að vinna að umfangsmestu breytingu á íslenska skólakerfinu frá því grunnskólinn var færður til sveitarfélaga. Um þá tilfærslu hafa verið skrifaðar skýrslur bæði það sem vel var gert og það sem miður fór.

Heiti starfshópsins er: Starfshópur um greiningu tækifæra til endurskipulagningar og sameiningar leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila, með fjárhagslegan og faglegan ávinning í huga.

Það er hugtakið sameining sem ég er að velta fyrir mér. Hvað merkir að sameina leikskóla, tvo eða þrjá eða grunnskóla og leikskóla. Hvaða vinnubrögð eru líklegt að fylgt verði við það módel. Sameining felur í sé að það er verið að leggja niður skóla og stofna nýjan skóla, undir nýju nafni á grunni þeirra sem fyrir voru. Samrekstur krefst ekki eins afgerandi vinnubragða. Þar er verið að reka saman í samlagi ólíkar stofnanir til að njóta ákveðinna áhrifa sem stækkun og fækkun í yfirstjórn getur haft í för með sér.

Sameining 

Segjum svo að ætlunin sé að sameina leikskólana Gleðiborg (80 börn), Gestaborg (80 börn) og grunnskólann, Vonarskóla (245 börn).  Hvert er ferlið? 

1. Ákvörðun tekin um sameiningu.

2. Í henni felst að allir ofangreindir skólar eru formlega lagðir niður í núverandi mynd. Öllu starfsfólki, kennurum, stjórnendum og öðru starfsfólki er sagt upp starfi.

3. Nýr stjórnandi ráðinn - hann fær væntanlega að ákveða ýmislegt í tilhögun starfsmannamála. Hann ræður fólk til starfa hjá hinni nýju stofnun.

4. Grunnskólakennarar eiga allflestir biðlaunarétt - til að hann fari ekki að tikka er þeim boðið endurráðning - með nýjan ráðningarsamning.

Hægt er að segja flestum leikskólakennurum upp með 3ja mánaða fyrirvara, sumir eiga 4 mánaða rétt og örfáir 5 mánaða rétt. Örfáir með biðlaunarétt.

5. Það er nýs stjórnanda að ráða inn allt starfsfólkið upp á nýtt og veita í stöður, raða mynstrinu saman.

6. Í skólunum starfa síðan leik og grunnskólakennarar hlið við hlið með afar ólíkan samning og rétt. Hvernig verða þau mál höndluð? Hvernig verður undirbúningstímum beggja stétta t.d. háttað. Hvað með frí og skipulagsdaga? T.d. þar sem leikskólabörnin verða færð inn í grunnskólana? Nú er það svo í leikskólum að leikskólakennarar gefa eftir kjarasamningsvarðann undirbúningstíma sinn (4 tímar á viku) ef undirmönnun er í leikskólanum. Kannski er komið að því að slík vinnubrögð verða lög niður? Kontakt tími leikskólakennara sem starfar í 40 stundir ætti að vera 32,5 tími með börnum (kaffitími 35 mín á dag reiknaðar inn). Verður þessi tími nú virtur samsvarandi því sem gert er í grunnskólum?

Ef leikskóli er sameinaður grunnskóla er mér sagt að ráðningasamningur grunnskólastjóra ráði (þannig sé það t.a.m. í eina leik- og grunnskóla borgarinnar Dalskóla), það þýðir að laun stjórnandans hækka miðað við fjölda barna. 

Ef leikskóli er samrekinn grunnskóla hækka laun skólastjóra grunnskólans sem tekur verkefnið að sér samkvæmt samkomulagi skólastjórafélags Íslands við samband sveitarfélaga um 3 launflokka ef leikskólabörnin eru 30 eða fleiri. Í því samkomulagi er ekki ljóst hvort að leikskólabörnin teljast líka með í fjölgun barna þannig ef tveir leikskólar bætast við grunnskóli með t.d 245 nemendum hækka laun grunnskólastjórans um réttar 80.000 krónur. 

Sparnaður dæmi A = Laun tveggja leikskólastjóra og stjórnunarhlutfall eins til tveggja aðstoðarskólastjóra.

Gróflega má áætla að með uppsögn og niðurlagningu starfa 30 leikskólastjóra sparist um 140 - 180 milljónir er þá miðað við laun og launatengd gjöld. Ég vil fara að sjá þessar tölur frá borginni. Það er ekkert hægt að ræða Í ALVÖRU fyrir en tölurnar liggja fyrir.

Hvað þarf að vera til staðar?

En fleira þarf að liggja fyrir en upplýsingar um raunverulegan sparnað, m.a. starfslýsingar og skipurit. Á það er einmitt minnst í samkomulagi milli KÍ við Samband íslenskra sveitarfélaga sem Reykjavík er aðili að. Þar er tekið fram að áður en að samrekstri/sameiningu kemur verði að skoða nokkur atriði.

Áður en hafist er handa við undirbúning samreksturs skóla er nauðsynlegt að skilgreina, hvaða ávinningi stefnt er að. Þegar ákvörðun er tekin um samrekstur er mikilvægt að hafa gott samráð við foreldra og starfsmenn skólanna m.a. í gegnum skólaráð grunnskóla og foreldraráð leikskóla.

Sveitarstjórn/rekstraraðili skal tryggja að við ákvarðanatöku um samrekstur skóla liggi fyrir áætlun um skipulag samrekstursins og markmið.

Vakin er athygli á þeirri meginreglu að auglýsa skuli laus störf. Áður en störf stjórnenda eru auglýst þurfa að liggja fyrir skipurit samrekins skóla og starfslýsingar stjórnenda.

Til að tryggja skilvirka stjórnun er mikilvægt að hlutverk og ábyrgðarsvið allra stjórnenda séu skilgreind, þá er átt við skólastjóra og millistjórnendur.

Það er ljóst að það er að mörgu að huga varðandi sameiningarmál. Og það er nokkuð skýrt að  sameining og samrekstur er ekki það sama. Mismunandi vinnuferlar ættu að fara í gang eftir hvort að formið er samrekstur eða sameining. Ein ástæða sem ég hef heyrt um sameiningu grunn og leikskóla hér í borginni sé að víða sé töluvert mikið grunnskólahúsnæði ónotað, jafnvel heilu álmurnar. Í stað þess að bjóða leikskólum þá til afnota tímabundið er farin sú leið að sameina. Rannsóknir í Noregi þar sem elstu börn leikskólans voru færð inn í grunnskóla með sínum kennurum hræða. Leikskólamenningin og störf leikskólakennaranna voru jaðarstörf í skólunum. Smá saman, þurrkuðust sérkenni leikskólastarfsins út og kennslan í yngstu bekkjunum líktist því sem grunnskólinn hafði áður gert. Sporin hræða. Reyndar má líka líta til skýrsla hérlendis um forskólabekkina gömlu. Það sama gerðist þar.

Hættan er fyrir hendi og það er þeirra sem hafa trú á aðferðum leikskólans að standa vörð. Vel meinandi skólastjóri í einum og einum skóla er ekki nóg. Hér er fyrst og fremst verið að tala um kerfisbreytingu og  stærstu hugmyndafræðilegu breytinguna sem alla vega leikskólakerfið hefur gengið í gegn um í áratugi. Því þarf vel að vanda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl, hef fylgst með skrifum þínum undanfarið og þykir mjög áhugavert og vel gert. Hefurðu heyrt um efni sem kallast Stokkhólmsmódelið? Óskar Sandholt vitnar í það varðandi þessar sameiningar auk þess sem hann vann sjálfur rannsókn á sameiningu grunnskóla, þar vitnar hann í erlendar rannsóknir á sameiningu skóla. Spurning hvort það séu þessar ótal mörgu erlendu rannsóknir sem Oddný Sturludóttir er alltaf að vitna í?

Charlotta Magnusdottir (IP-tala skráð) 7.2.2011 kl. 18:38

2 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Þetta er skýrsla síðan menntaráð og grunnskólastjórar í Reykjavík fóru í heimsókn þangað og kynntu sér fyrirkomulag menntamála. Skýrsluna er að finna á vef FL og sjálfsagt hjá menntaráði - grunnskólar.

Rannsókn Óskars er ekki eins djúp og ég átti von á en ég renndi í gegn um hana í dag. En kannski dýpkar hún við frekari lestur.

http://fl.ki.is/pages/261/NewsID/2801 þarna er að finna tengla á bæði ritgerð Óskars og Stokkhólmsskýrsluna.

Kristín Dýrfjörð, 7.2.2011 kl. 19:21

3 identicon

Já þetta er nkl sama svar og ég fékk frá honum...þ.e.a.s. svarið sem er á FL síðunni.

Charlotta Magnusdottir (IP-tala skráð) 7.2.2011 kl. 19:59

4 identicon

Ég heimsótti leikskóla í Stokkhólmi í haust og í öðru af tveimur hverfum var það mjög áberansi að ekki ahfði það gengið vel til.

Bergljót Björg Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 8.2.2011 kl. 11:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband