26.1.2011 | 03:35
Líðan og vellíðan - barnið sem borgari
Í drögum að aðalnámskrá leikskóla eru lögð til ýmis nýmæli og hugtök sem við leikskólakennarar höfum hingað til ekki notað í opinberri umræðu. Er þeim þar gert nokkuð hátt undir höfuð. Má segja að sumt sem lagt er til sé mjög í anda þess sem er að gerast alþjóðlega í leikskólaheiminum og ekki bara honum heldur t.d. í tengslum við mannréttindabaráttu.
Þegar Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var samþykktur hafði hann fljótlega í för með sér að fólk fór að endurskoða hug sinn til barna og bernskunnar. Það fór að bera á umræðu um mikilvægi þess að sjá og viðurkenna að börn eru þátttakendur, þau hafa mótandi áhrif á sitt nánasta umhverfi, heimili og skóla. Í skrifum varð æ algengara að sjá á orðtök eins og félagsfræði bernskunnar, barnið sem borgari, það var farið að ræða um réttindi barna, sjálfstæðan rétt umfram rétt foreldra. Rétt barna til bernsku, til að hafa tækifæri til að móta og hafa áhrif. Að hluta tengist umræðan hugmyndum fólks um lýðræði og lýðræðislegt skólastarf.
Sumt tengist umræðunni um mikilvægi valdeflingar meðal barna, að hafa t.d. tilfinningu fyrir að geta haft einhverja stjórn á aðstæðum og eigin líf. Sú sýn að barnið væri eins og gróðurhúsplanta sem aðeins þyrfti að vökva og veita rétta næringu varð víkjandi. Að börn væru eins og svampar og það væri okkar að stýra því sem þau drægju til sín, slík hugmyndafræði vék fyrir þeirri, að börn séu þátttakendur, þau hefðu og gætu haft áhrif á umhverfi sitt. Þau innu úr reynslu sinni og áreitum á persónubundin hátt, þau séu getumikill og hæfileikarík. Má eiginlega segja að við höfum horfið úr hlutverki hins alvitra, alltumlykjandi til þess að vera meðrannsakandi og þátttakandi með barninu í ævintýri lífsins.
Það má ekki misskilja það sem svo að með þessum umbreytingum og nýju sýn hafi t.d. leikskólakennarar afsalað sér uppeldis og menntunarhlutverki sínu. Eða ábyrgð á uppbyggingu skólastarfs. Hins vegar krefst nýr hugsunarháttur nýrra vinnubragða og nýrrar orðræðu. Vel að merkja innan leikskólafræðanna eins og víða annarstaðar er fólk mjög meðvitað og mikið rætt um vald og gildi orðræðunnar og hversu mjög hún mótar vinnubrögð og skoðanir okkar. En um það má skrifa annað blogg.
Meðal þeirra hugtaka sem æ oftar sjást í erlendum fræðiritum er well being- og þá í alveg sérstakri merkingu. UNICEF gefur t.d. út skýrslur þar sem fjallað er um viðmið fyrir velferð eða vellíðan (well being) barna. Í þeirri umfjöllun er ekki verið að ræða um líðan barna eins og við höfum e.t.v. skilið það orð í gegn um tíðina. Heldur er verið að innleiða nýtt hugtak vellíðan og á bak við það eru aðrar og meiri skilgreiningar.
Í forvitnilegri grein (Ben-Arieh 2005) um skilgreiningu á hugtakinu vellíðan sem ég las nýlega er fjallað um vellíðan barna og viðmið. Þar er bent á að þegar verið er að meta vellíðan verði að horfa til lífsleikni barna, möguleika barnsins til að vera borgari, þátttöku barna í ýmsum ákvöðrunum sem þau varða og eigin menningu (barnamenning - félagamenning). Hvaða möguleika veitir skólakerfið börnum t.d. til þess að vera þátttakendur, móta eigin menningu, vera borgari með því sem því fylgir, (samræðu, hlustun virðingu og svo framvegis), hvernig er verið að vinna með lífsleikni? Ef við horfum með þessum gleraugum á vellíðan má sjá að það er ekki bara að verið að tala um almenna líðan út frá tilfinningum. Heldur er hugtakið miklu stærra og víðfeðmara.
Í drögum að Aðalnámskránni má sjá að notkun hugtaksins vellíðan tengist þeirri skilgreiningu sem hefur verið að riðja sér til rúms erlendis og ekki er átt við hugtakið líðan eins og við skiljum í almennu tali.
Í drögunum er þetta orðað svona:
Mat á vellíðan og námi barna felur í sér að safnað er upplýsingum um það sem börn fást við og hafa áhuga á; hvað þau vita, geta og skilja. Upplýsingarnar eru nýttar til að styðja við nám og velferð barns, við skipulagningu leikskólastarfsins og samvinnu við foreldra. Um er að ræða ferli sem á að vera samþætt daglegu starfi leikskólans og felur í sér skipulagningu, skráningu, mat og ígrundun á námi barna. ... Er þar lögð áhersla á að efla alhliða þroska barna, sjálfstæði, virkni og þátttöku barna, sjálfsvitund, hæfni þeirra til mannlegra samskipta, víðsýni, siðferðiskennd og hæfni þeirra til sköpunar og tjáningar.
Það er ljóst að hugtakið líðan nær eitt og sér ekki til þessara þátta. Með því að innleiða hugtakið vellíðan í aðalnámskrá leikskóla er í leiðinni verið að innleiða nýjan tilvísunarramma. Við leikskólakennarar eigum sennilega eftir að takast á um þetta hugtak eins og mörg önnur.
Við eigum eftir að semja okkar tilvísunarramma, ræða og ígrunda hvaða merkingu þessi ákvæði og hugtakanotkun hefur fyrir starfshætti leikskólans.
Á öðrum stað í drögum að aðalnámskrá leikskóla er rætt um aðkomu barna og þess að haft sé samráð við barnið um upplýsingar sem það varðar og fara á milli skólastiga. Vegna þess hvað við innan leikskólans höfum verið föst í allskyns stöðluðum upplýsingum hafa margir í mín eyru hnussað yfir þessu ákvæði. Sjá ekki hvernig 5 ára barnið á að hafa áliti á t.d. Hljómi.
En ef við horfum nú á mat á vellíðan og merkingu hugtaksins vellíðan eins og það er sett hér fram. Þá sjáum við að þetta getur farið vel saman.
Í leikskólanum Aðalþingi (eins og mörgum öðrum leikskólum) er t.d. lögð stund á barnaheimspeki. Þar eru börn að velta upp ýmsum hugmyndum, fást við að skilgreina hugtök og ræða spurningar. Er ekki raunhæft að ætla að þau börn t.d. gætu rætt spurninguna, hvað vil ég að grunnskólakennarinn viti um mig?. "Að mér þykir gaman að teikna, ég er rosalega góður vinur, ég er flink að hreyfa mig, ég kann að galdra...." Ef ég ætti að fara með myndir (t.d. ljósmyndir) út starfi leikskólans með mér í grunnskólann, hvað vil ég þá helst sýna og segja frá í starfi leikskólans? Með þessu móti væri barnið að hafa áhrif á þær upplýsingar sem færu um það og slík vinnubrögð eru líka mjög í anda lýðræðis, sem er jú ein meginstoð og markmið leikskólauppeldis. Auðvitað er ljóst að síðan fara líka alla vega aðrar upplýsingar á milli en er ekki sjálfsagt í ljósi hugmynda um sterka og hæfileikaríka barnið að treysta því fyrir hluta verkefnisins.
Skilgreining úr nýlegri OECD skýrslu sem Ísland kemur bara nokkuð vel út, slóð á skýrsluna má finna hér
More recently, Ben-Arieh and Frones (2007a, p. 1) have offered the following definition, also indicators-based: Child well-being encompasses quality of life in a broad sense. It refers to a childs economic conditions, peer relations, political rights, and opportunities for development. Most studies focus on certain aspects of childrens well-being, often emphasising social and cultural variations. Thus, any attempts to grasp well-being in its entirety must use indicators on a variety of aspects of well-being.
Flokkur: Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 04:30 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.