23.1.2011 | 16:48
Þöggun - viljandi eða ómeðvituð
Fyrir nokkrum árum kom út bókin Félagsfræði menntunar eftir Gest Guðmundsson. Bókin er þarft innlegg í umræðu og til að móta tilvísunarramma um íslensk menntamál. Gestur skoðar kenningar áhrifamikilla hugsuða á síðustu og næstsíðustu öld. Þar er jöfnum höndum m.a. fengist við hugmyndir og skrif sem við innan menntunarfræðanna höfum frekar talið til heimspeki og félagsfræðinga sem hafa mótað hugmyndir okkar um félagsfræðina (eins og Durkheim og Herbert Mead). En til fyrri flokksins má nefna þá John Dewey og Michael Foucault. Að sjálfsögðu geta þeir og aðrir fallið í báða flokka og svo miklu fleiri ef út í það er farið.
Það er hins vegar tvennt sem ég sakna í bókinni. Annarsvegar velur Gestur að skilgreina íslenska menntakerfið frá grunnskóla upp í háskóla og lætur eins og leikskólastigið sé ekki til. Kannski sérstaklega eftirtektarvert þar sem það er einmitt á þessu skólastigi sem fólk í reynd hefur verið að framkvæma og vinna með ýmsar þær kenningar sem hann heldur á lofti. Dewey hefur t.d. verið áhrifamikill og má sjá hvernig kenningar hans speglast í nútíma leikskólauppeldi, í aðalnámskrá og stefnu og störfum einstakra skóla hérlendis. Hugmyndir hans um lýðræði, menntun og reynslu hafa hríslast inn í leikskólafræðin. Annar hugsuður sem Gestur fjallar um er Michel Foucault en kenningar hans um vald, valdabaráttu og valdaafsal og orðræðu valdsins eru algeng í skrifum innan leikskólans. Í samtíma leikskólafræðum les maður varla þá bók sem ekki notar kenningar hans sem tilvísunarramma á einhvern hátt. Fyrir um tveimur áratugum heyrði ég fyrst minnst á hugmyndir Bourdieu um Habitus þegar ég las rit norrænna leikskólakennara og þar sem þær voru m.a. að skilgreina áhrif bæði sögu leikskólans og eigin bakgrunns á starfið og hvernig það var skilgreint og hvaða venjur voru líklegastar til að viðhaldast og skapast þar.
Kenningar þessara manna hafa verið og eru áhrifamiklar í mótun leikskólastarfs að einhverju marki hérlendis og vissulega á alþjóðlega vísu og þess vegna er það slæmt að framhjá leikskólanum skuli gengið í annars jafn frábæru riti og Félagsfræði menntunar er. Þar sem í bókinn er nú verið að fjalla um vald orðræðunnar og hvernig henni er stýrt og áhrif hennar, verð ég að velta fyrir mér hvort hér sé um viljandi þöggun að ræða, að með því að telja leikskólann ekki með til íslenska menntakerfisins sé höfundur að halda fram ákveðnu áliti á leikskólanum og stöðu hans eða hvort að þekking hans á skólakerfinu nær ekki lengra. Hvort sem er, er fjarvera leikskólans í bókinni æpandi.
Ég saknaði þess líka í bókinni að gerð sé grein fyrir kenningum kvenna. Vissulega eru margar þær konur sem vitnað er til í dag, frekar skilgreindar sem heimspekingar, (svona eins og sumir karlarnir sem fjallað var um hér að ofan), en það hefði verið forvitnilegt að sjá umfjöllun Gests um hugmyndir og kenningar kvenna eins og, Mary Wollenstonecraft sem hafði byltingarkenndar hugmyndir um menntun á ofanverðri 18. öld, eða samtímakonunum, Maxine Greene, Nel Noddings eða Madeleine Arnot. Að slíkum viðbótum hefði verið mikill akkur fyrir skólasamfélagið. Alveg eins og það er akkur að fá aðgengilegt efni um Thomas Ziehe sem hefur verið nokkuð fyrir utan radar flestra hérlendis (nema ef vera skyldi fólks í tómstundarfræðunum).
Að endingu þá skal þess getið að bókin er kennsluefni í leikskólafræði við Háskólann á Akureyri.
Gestur Guðmundsson. 2008. Félagsfræði menntunar: kenningar hugtök og rannsóknir og sögulegt samhengi. Skrudda. Reykjavík.
Flokkur: Menntun og skóli | Breytt 24.1.2011 kl. 13:08 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.