12.1.2011 | 15:57
"Ég get svo sem alltaf farið að vinna í leikskóla"
Leikskólinn hefur verið undir mikilli pressu undafarið ár. Góðæristímar í samfélaginu hafa löngum haft í för með sér kreppu í leikskólum. Leikskólarnir hafa verið illfærir í samkeppni um starfsfólk og margir leikskólar upplifað að vera miðstöð nútíma farandverkafólks. Því miður oft fólks sem hefur engan metnað fyrir hönd leikskólans. Eftir að lengsta krepputíma í íslensku leikskólasamfélagi virtist vera að ljúka sáu margir leikskólastjórar fram á betri tíð, sáu fram á að geta mannað þær stöður sem ekki fengust leikskólakennarar í með metnaðarfullu og flottu fólki. "Hvað er nokkurt mál að fá fólk núna?" er spurt. En hver hefur verið raunin?
Ég var ein þeirra sem fagnaði þeirri hliðverkun kreppunnar að það væri ekki skömm að vera á atvinnuleysisskrá. Að það væri ekki eins og að segja sig til sveitar. Mér fannst það mikilvægt fyrir mannlega reisn. Ég er ein þeirra sem finnst mikilvægt að búa í samfélagi sem heldur utan um þá sem minna mega sín eða eiga erfitt á tímabilum í lífi sínu, að það sé til kerfi sem heldur utan um það fólk. En svo eru það hinir sem sjá samtrygginguna ekki sömu augum og ég, sem kerfi sem tekur við ef áföll verða. Heldur sem kerfi til að nota og þeir eiga rétt á. Að það er kostað af samneyslunni, mér og þér og það sé í raun að stela.
Ég áttaði ég mig heldur ekki á því að þar sem svo litlu munar á því sem fólk sem er á atvinnuleysisiskránni fær bæði í formi launa og hlunninda og þess að vera á vinnumarkaði leikskólans að starfið í leikskólanum er ekki eftirsóknarvert. Það er betra að vera á skránni.
Ég hef líka heyrt í ráðgjafa sem ræðir við fólk í atvinnuleit. Hún segist oft heyra. "Æi ef ég fæ ekkert annað get ég svo sem farið að vinna í leikskóla". Viðhorf sem lýsa leikskólanum sem ruslakistu vona og væntinga. Svona viðhorf stinga okkur í leikskólanum sem trúum á gildi hans, í hjartastað. Við viljum nefnilega fólk sem finnst leikskólinn jafn eftirsóknarverður og flottur vinnustaður og okkur finnst hann alla jafnan vera.
Leikskólastjórar segja ýmsar sögur af samskiptum sínum við væntanlegt starfsfólk. Það kom mörgum þeirra t.d. á óvart að þegar hringt var í fólk af atvinnuleysisskránni, komu spurningar um hitt og þetta. Fólk sem samkvæmt skránni var að sækja um fullt starf gat t.d. ómögulega unnið fullt starf, þurfti að sinna hinum og þessu (einsog svartri atvinnustarfsemi). Það eru jafnvel dæmi þess að fólk sem finnur sig ekki í starfi biður um uppsagnarbréf til að fara fyrr inn á skrána. Einn leikskólastjóri sagði mér af starfsmanni sem mætti seint og illa og skyldi ekkert í því að ekki væri búið að segja sér upp, var í raun að biðja um það með hegðun sinni. Leikskólastjórinn var aftur í þeirri stöðu að verða að leika eftir leikreglum og samkvæmt þeim er það meira mál en að hnerra að segja upp fólki. Einn leikskólastjóri segist biðja um starfshæfnisvottorð þar sem hennar reynsla er að fólk sé marga daga í mánuði frá vegna veikinda. Henni og öðrum finnst t.d. ekki í lagi að fullfrískt fólk um þrítugt sé að meðaltali frá um 5 daga í mánuði. Það merkir í raun að viðkomandi er 75% starfsmaður og til að mæta 3 svona starfsmönnum þarf eina afleysingarmanneskju, (reikna með að afleysingin sé líka 25% veik). Afleysingarmanneskju sem auðvitað er ekki til staðar. Því verður álagið á þá sem eftir standa enn nú meira. Vegna sterks veikindaréttar á allt þetta starfsfólk rétt á 100% launum og það er erfitt að hreyfa við því. Verst er að kostnaðurinn er ekki aðeins fjárhagslegur heldur líka og ekki síst siðferðislegur. Annar leikskólastjóri segist ekki ráða fólk nema tímabundið, til að lenda ekki í uppsagnarklemmunni. Ástæðuna, hún hefur séð marga starfsmenn halda út reynslutímann en um leið og honum lýkur er eins og skipt um plötu. Annar leikskólastjóri sagði mér að hún hefði sagt upp starfsmanni, hann meldaði sig veikan daginn eftir og mætti með uppáskrifað langtímaveikindavottorð frá lækni. Daginn sem uppsagnarfresturinn rann út var hringt í leikskólann úr öðrum leikskóla til að spyrja um viðkomandi. Leikskólastjórinn sagðist hafa sagt kollega sínum að hún fagnaði því að viðkomandi væri kominn til heilsu.
Það er á þessum tímum og við líkar aðstæður sem sameiningartal hitti leikskólastjóra fyrir. Og það er í þessu ljósi sem fólk verður líka að skoða viðbrögð leikskólasamfélagsins. Leikskólinn hefur verið að róa lífróður og í stað þess að kasta til hans línu er bætt í lestarnar og róðurinn þyngdur.
Ég sé sjálf marga kosti við sameiningar leikskóla, ég sé spennandi tækifæri til að þróa starf og aðferðir. En ég held að það sé hættulegt að gera það á kostnað stjórnunar skólanna eins og staðan er nú.
Í flestum leikskólum er flottur kjarni fólks sem ber upp starfið og sinnir því af einstökum faglegum metnaði. En í allmörgum leikskólum er líka ákveðið hlutfall fólks sem stoppar stutt við. Því miður eru áhrif þessa hóps miklu meiri á leikskólastarfið en æskilegt er.
Svona að lokum langar mig að segja frá að fyrir allnokkrum árum lét Kópavogsbær gera hjá sér könnun á hverjir væru veikir í leikskólanum og komst að því að þeir sem síst eru veikir eru leikskólakennararnir.
Flokkur: Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 17:40 | Facebook
Athugasemdir
Sæl Kristín, þetta er áhugaverð lesning.
Í Kópavoginum voru vandamál við að manna leikskóla um 2006. Samstarfsnefnd Baugmiðla og Samfylkingarinnar fjallaði ítarlega um þetta mál. Bæjaryfirvöld ákváðu að taka á málinu og gera betur við starfsmenn leikskólanna og starfsmannaskortur var ekki lengur vandamál. Hluti lausnarinnar var að gefa starfsmönnum leikskólanna afslátt af leiksólagjöldum barna sinna.
Það kemur kreppa, sem mér skilst að sé þér ekki mikið áhyggjuefni, og við tekur nýr meirihluti í Kópavogi. Það þarf að skera niður og hvað fer fyrst undir hnífinn. Jú, afslátturinn fyrir starfsmenn leikskólanna. Guðríður Arnardóttir oddviti Samfylkingarinnar, segir síðan í sjónvarpsviðtali að þessi skerðing muni ekki hafa nein áhrif!!! Ekki lýgur oddviti Samfylkingarinnar, eða? Samstarfsnefnd Samfylkingarinnar og Baugsmiðlanna eru sennilega í vetrafríi því ekkert heyrist í þeim, og ekkert heyrist í Kristínu Dýrfjörð, nema til þess að fagna kreppunni.
Sigurður Þorsteinsson, 12.1.2011 kl. 18:50
Sæll Sigurður, best að það sé á hreinu, ég fagna ekki kreppunni og hef aldrei gert, en ég fagnaði því sem ég taldi vera mannleg hliðaráhrif hennar, það er allt annað. Varðandi lægri leikskólagjöld er það nú mun eldri gjörningur en 2006, ég útskrifaðist 1986 og þá borguðum við lægri gjöld og fengum reyndar líka 8 tíma leikskólasvist sem öðrum giftum foreldrum bauðst ekki þá.
Ég skil að starfsfólk leikskóla (ekki bara leikskólakennarar heldur líka annað starfsfólk sem er á enn lægri launum) séu óánægðir með að það eigi að setja það á hærri gjöldin, munurinn er nokkuð mikill og samsvarandi kjaraskerðing. Ég veit líka að þetta var ekki fyrsta val leikskólanefndar Kópvogs, var reyndar ekki í þeirra tillögu. En það er annað mál. Málið snýst ekki bara um leikskólagjöldin heldur miklu stærri mál sem eru sameiningar leikskóla og niðurlagningu þeirra starfa sem betur eru borguð innan kerfisins.
Svo biðst ég undan því að vera sérstaklega kennd við miðla Baugs eða Davíðs. Ég hef hinsvegar aldrei leynt því að vera flokksbundin í Samfylkingunni, en það merkir ekki að ég sé sammála þeim sem stýra leikskólamálum í sveitarfélögum og eru flokksfélagar mínir. það merkir heldur ekki að ég sé sjálfkrafa á móti öllum breytingum. Ég hef stutt breytingar bæði hægri- og vinstirliða hafi ég talið það þjóna hagsmunum leikskólans.
Kristín Dýrfjörð, 12.1.2011 kl. 19:12
Sæl Kristín
Það er hárrétt hjá þér að þú fagnaðir hliðaráhrifum kreppunnar. Ég þarf að vinna með fólki sem einnig þarf að vinna með þessum hliðaráhrifum og fyrir það fólk eru þessi hliðaráhrif hreint ekki jákvæð.
Nú hef ég í langan tíma gert alvarlegar athugasemdir við þau kjör sem leikskólakennarar hafa búið við, og því finnast mér athugasemdir eins og hjá Guðríði Arnardóttur oddvita Samfylkingarinnar í Kópavogi argasti dónaskapur. Á sama tíma eru hún að auka greiðslur til sín persónulega úr bæjarsjóði.
Ég virði þessar hugleiðingar þínar og fannst þær mjög áhugaverðar, en litli púkinn í mér stóðst ekki mátið að láta í sér heyra.
Með bestu kveðjum.
Sigurður Þorsteinsson, 12.1.2011 kl. 21:33
Sæl Kristín. Þetta er fín grein hjá þér og vel gerð. Ég er ein af þeim sem fagna því að fjárfestingarsukkið var stöðvað og þakka guð ( ef hann er til ) fyrir að það varð ekki verra "strand" en raun ber vitni.
Ég var búin að vonast eftir því lengi að dansinn kringum gullkálfinn stoppaði og ef það hefði gerst ca 2 árum fyrr þá værum við ekki að tala um Icesave oþh. Ég hef mikla samúð með fólki á efri árum sem misstu sitt sparifé vegna þess að það treysti ungu bissnessmönnunum í bönkunum en það var alltaf óhjákvæmilegt eins og staðan var orðin.
Við sem höfum upplifað alvöru kreppur tökum þessari kreppu eins og hverju öðru hundsbiti en vitum að hún er það sem bjargar okkur af þeirri leið sem við vorum á og lá lóðbeint til helvítis. Það þarf ekki að minna á að Samfylkingin baðst afsökunar á sínum þætti í þeim dansi og þar voru feilsporin illþolanleg. Enginn sagði þó af sér svo þetta hefur ekki talist alvarlegt mál.
Nú getum við farið að fókusa á aðra hluti og meta okkur upp á nýtt bæði sem einstaklinga með ný markmið og sem samfélag. Efla einstaklingsframtakið , samhug og virðingu fyrir fólki og virða og vernda náttúruna. Styðja þarf við frumherja, efla nýsköpun og stórefla ferðamannageirann.
Jákvæðast er þó að nú hafa foreldrar meiri tíma með börnum sínum.
Þú sem Samfylkingarmanneskja vilt væntanlega gefast upp fyrir Evrópusambandsásókninni og leggja upp laupana. Það vil ég ekki. Ég vil sterkt Ísland og sterka Evrópu í góðri samvinnu en ekki sameiningu. Það getur aldrei leitt til góðs. Ég bendi á viðtal Þórhalls í Návígi við Alfreð Gíslason sem útskýrði þetta afar vel.
En ef svo fer verða vandamál eins og þú lýsir hér, réttilega, ekki umræðunnar virði. Hvernig eru annars þessi mál í Evrópusambandslöndunum? Veistu um það? Það væri gaman að fá samanburð þaðan? Gangi þér vel, kveðja Kolla
Kolbrún Stefánsdóttir, 13.1.2011 kl. 10:55
Mjög áhugaverð skrif um leikskólamál, en ég verð að vera sammála Kolbrúnu og Sigurði því ég hef orðið var við innan grunn og menntaskóla (þar sem obinn af kennurum virðast vera í samfylkingunni) að það væri nú ekki mikið mál að skólastjórnendur þar geti rekið leikskólann til að hagræða þar sem þeir lægju saman!!
Algjört skilningsleysi og litið niður á störf leikskólakennara innan þeirrar stéttar.
kv. Óskar
Óskar (IP-tala skráð) 13.1.2011 kl. 20:31
Það er sennilega alveg rétt þetta með skólastjóra hinna skólastiganna, að það er ekkert mál að bæta svo sem eins og einum leikskóla við sig, sérstaklega ef það er gert eins og ég heyri af, leikskólastjórastaðann er lögð niður en einhverjum öðrum innan leikskólans (jafnvel gamla leikskólastjóranum) fengið að sjá um öll þau mál sem hann sá um áður sérstaklega sem snýr að daglegum rekstri og starfsmannamálum á mun lægri launum, grunnskólastjórinn hækkar hinsvegar og heitir svo stjóri yfir öllu. Svo sennilega er þetta rétt hjá þeim.
Ekki að ég tel leikskólastjóra ágætlega í stakk búna til að reka grunnskóla ef svo ber undir. Þeir hafa mikla reynslu af fjármálavafstri, t.d. af rekstri mötuneyta, þeir eru snillinga við að pína minnst 125% út úr hveri krónu. Sennilega mundu þeir bara rúlla upp grunnskólarekstrinum.
Annars fellur mér illa að það sé verið að draga fólk í pólitískadilka varaðandi viðhorf til stéttar minnar. Annars er ég nokk viss um að viðhorf til leikskóla og starfsins þar sé ekki bundið við stjórnmálaskoðun viðkomandi. Skilningsleysið er miklu víðtækara en svo að hægt sé að benda á tiltekna hópa.
Kristín Dýrfjörð, 15.1.2011 kl. 02:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.