Dagur nýrra hugmynda og tækifæra

Hver dagur í leikskólanum er dagur nýrra verkefna. Dagur nýrra hugmynda og tækifæra. Fyrir um 60 árum stofnuðu fóstrur stéttarfélag til að berjast fyrir rétti sínum en líka til að berjast fyrir rétti barna. Ímynd stéttarinnar er órjúfanlega tengd réttindum barna og skyldum við þau. Stundum er sagt að ef ekki væru börn væri enginn þörf fyrir leikskóla. Fyrir okkur sem störfum innan leikskólans er þetta sannleikur sem við megum ekki gleyma. Öll þróun í starfi á að miða að því besta fyrir öll börn. Að öll börn eigi hlutdeild í því starfi sem fram fer. Í námsumhverfi sem byggist á lýðræðislegum áherlsum. Réttur okkar leikskólakennara er rétturinn til að vernda námsumhverfi og uppvaxtarskilyrði barna innan leikskólans, rétturinn til að þróa það í takt við nýja þekkingu og viðhorf. Daglega sé ég þau gildi sem fyrstu fóstrurnar tileinkuðu sér höfð að leiðarljósi birtast í metnaðarfullu leikskólastarfi. Þeim ber að þakka frumkvöðlastarf sitt. Seinna tóku aðrir við kyndlinum og saman ætlum við að bera hann inn í framtíðina.  

Barnavinafélagið Sumargjöf

 Í mínum huga er það merkileg staðreynd að Barnavinafélagið Sumargjöf var stofnuð á Sumardaginn fyrsta, en Sumargjöf rak og átti fyrstu leikskólana. Leikskólinn hefur frá upphafi verið rekinn á forsendum barnsins vegna barnsins. Frá því að fyrstu leikskólarnir opnuðu fyrir um rúmum 80 árum hefur sumt breyst en annað ekki. Leikskólakennari sem gengi inn í leikskólastofu fortíðarinnar kannaðist sjálfsagt við margt. Leikskólanum hefur auðnast að byggja á arfleið  sinni og er stoltur af henni. Hún er hluti af gildagrunni flestra leikskólakennara. Samtímis hefur námsumhverfi leikskólans tekið stórstígum breytingum, metnaðarfull verkefni eru unnin daglega í fjölda leikskóla. Verkefni sem snúa að skapandi, gagnrýnu námi og að velferð barna. Enn á ný eru breytingar framunda hjá leikskólunum.

Spennandi tímar - þjóðfundur um menntamál

Nýlega hafa verið sett lög og reglugerðir sem krefjast nýrra vinnubragða, nýrra hugsunar, ný námskrá er í burðarliðnum og háskólarnir hafa endurskoðað kennaranámið. Nú um stundir fagna leikskólakennarar 60 ára afmæli stéttarfélags síns, í viku sem þeir hafa tileinkað leikskólastarfi. Samtímis er hópur áhugfólks um menntamál að skipuleggja Þjóðfund um menntamál, þar sem rætt verður um menntun barna á bæði leik- og grunnskólaaldri. 

Sjálf hef ég verið þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að taka örfá spor í sögu stéttarinnar. Framundan eru spennandi tímar, sem ég hlakka til að lifa, hlakka til í að fá að tækifæri til að móta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband