ævintýri í gönguferð - eða hversu ótrúlegar tilviljanir geta verið

veidi snæfells ág 07

Um hádegisbilið í dag segir Lilló við mig, “Kristín þú hefur val um tvennt, að halda áfram að vinna í garðinum eða skreppa með á Snæfellsnes”. En þar eru víst nokkur góð vötn sem hægt er að renna í. Mér fannst valið ekkert sérstaklega erfitt og valdi Snæfellsnesið enda fer garðurinn ekkert. Við keyrðum sem leið liggur upp að Baulárvallavatni. Þar útbjó Lilló stöngina og dreif sig út í vatnið á vaðstígvélum. Ég aftur ákvað að  líta aðeins til berja, blóma og fjallagrasa. Soldið fann ég af aðalbláberjum en ekki sá ég krækiber eða fjallagrös.  

Ég reika með meðfram vesturenda vatnsins, sá þar dálaglegan foss sem ég vildi skoða nánar. Þegar ég hafði gengið nokkra stund sé ég fólk koma á móti mér. Er það þá ekki sjálfur forseti Alþingis og frú á gönguför um vatnaleiðina. Við tókum upp spjall um berjasprettu og höldum svo hvort sína leið. Þau til norðurs og ég til suðurs. Innra með mér hló ég og hugsaði hvað örlögin geta stundum verið glettin. Að hitta einmitt ráðherra samgöngumála þegar flugslysið var. Ráðherra sem okkur fannst því miður ekki standa sig í því máli. Og það í upphafi sjálfrar verslunarmannahelgarinnar. Hinnar árlegu áminningar minnar um hvernig lífið getur leikið okkur.

  

Ætla svo að lokum að segja frá því að í vor hitti ég gamla skólasystur, mikla sjálfstæðiskonu af Snæfellsnesinu og hún sagði mér að viðkomandi hefði verið mjög góður ráðherra fyrir nesið. Eins og ég reyndar reyndi líka í dag á góðum vegum og fáum einbreiðum brúm.

sólarlag


Gerist líka hér

Samærileg mál gerast hér. Það er ekki lengra en síðan í vor þegar mál hinnar Gvatemalísku heimasætu þáverandi umhverfisráðherra voru sem mest í fréttum, að íslensk kona sem hefur alla tíð verið með íslenskt vegabréf var neitað um endurnýjun vegna þess að hún væri sænsk. Verra er að það var meira mál fyrir hana að fá þetta lagfært en hina kólumbísku mey að fá sitt íslenska ríkisfang. Fyrstu viðbrögð hinnar íslensku bírókratíu voru ekki hjálpsemi og leiðbeiningar. 
mbl.is Margir Norðmenn eru í rauninni Svíar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins sýna Eyjamenn manndóm og losa sig við Árna sem kynni

Loksins sýndu Eyjamenn þann manndóm að losa sig við Árna Johnsen sem kynni á þjóðhátíð og bera við zero tolerance gagnvart ofbeldi. Gott hjá þeim. Skal alveg viðurkenna að ég hef enn ekki fyrirgefið þjóðhátíðarnefnd að hafa látið Árna minnast þeirra sem létust eftir flugslysið í Skerjafirði þann 7. ágúst 2000, árið eftir. Finnst þeir reyndar enn skulda mér afsökunarbeiðni. Fannst það fyrir neðan allar hellur að Árni þáverandi flugráðsmaður, Árni sem hafði í útvarpsviðtali látið falla miður falleg orð um ýmsa aðstandendur ætti að minnast þeirra sem létust og votta þeim virðingu. En loksins kom að því að Eyjamenn sýndu að þeir hafa til að bera sjálfsvirðingu og veittu Árna reisupassann.

Við erum að renna inn í þá helgi sem ég kvíði allt árið. Ég bið alla að fara varlega. Ég vona að allir skili sér heilir heim. Fórnarkostnaður okkar er þegar orðin of mikill.         


Mest skráða tímabil mannskynssögunnar - mögulega gleymt?

Ég ákvað að nota mér þann möguleika að senda stafrænar myndir til framköllunar í Hans Petersen. Minnug þeirra orða fræðimanns sem ég man því miður ekki hvað heitir, að þrátt fyrir að okkar tímar væru sennilega þeir mest skráðu í sögu mannsins, væri minna til að minnast fyrir næstu kynslóðir, sennilega hyrfu minningar okkar með breyttri stafrænni tækni. Sjálf hef ég lent í að missa flottar myndir þegar harðir diskar hafa krassað. Einhvern vegin ætlar maður alltaf að vera með afrit en stundum myndast gloppur. Með því að senda í framköllun var ég að gera tilraun til að loka einhverjum gloppum. Ég var líka nokkuð ánægð með afraksturinn. Sérstaklega fannst mér gaman að nýta mér þann möguleika að kroppa myndir áður en ég sendi þær. Læt fylgja með mynd af lítilli frænku minni sem ég tók út í garði sl. föstudag.

100_4697
Í felum á bak við flaggstöng.


Ógn byssunnar

Á stuttum tíma hafa tveir menn með gengdarlausri frekju sem hlýtur að eiga sjúklegar rætur, reynt að stjórna lífi þeirra sem nærri þeim standa með ógn byssunnar. Ekki er lengra en í síðustu viku að maður var dæmdur fyrr morðtilraun gagnvart eiginkonu sinni. Núna er það fyrrverandi maki sem hefur ekki skilið að hann var fyrri maður. Morðið kallar á umræðu um úrræði vegna heimilisofbeldis. Um rót þessa ofbeldis, um forvarnir sem vinna þarf að. Hér þurfa fjölmiðlar að standa vaktina.

   

En hvað gerir það að verkum að menn telja sig hafa slíkt vald yfir þeim sem nærri þeim standa að þeir geta hugsað sér að svipta þá lífi. Ekki veit ég hvort hægt er að rekja dæmin til aukinnar skotvopnaeignar almennings, aukins heimilisofbeldis eða þess að firring gagnvart mannslífum virðist vera að aukast í samfélaginu. Því miður þarf fólk ekki að undirgangast geðheilbrigðispróf til að fá skotleyfi og byssueign virðist vera töluvert almenn.

 

Margar fjölskyldur eiga nú um sárt að binda. Fjölskyldum bæði fórnarlambsins og þess sem ódæðið framdi votta ég mína dýpstu samúð.


mbl.is Árásarmaðurinn svipti sig lífi; fannst látinn á Þingvöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitíski riddarinn - Össur

Össur fjallar á bloggi sínu um þátt í sjónvarpinu sem hann sá eiginlega ekki. Rétt að hann hafi fylgst með og hjó eftir einum "skandal", Valgerðar með ungliðana. Hann fellur í þá gryfju sem hann telur talsmann Þjórsárvirkjunar falla í. En Össur segir á bloggi sínu um hann “Mér fannst það ekki traustvekjandi fyrir málstaðinn þegar talsmaður þeirra fór með frásögn af ummælum mínum af fundi í iðnaðarráðuneytinu þar sem hann var ekki viðstaddur - og fór eðlilega ekki rétt með.” Verra finnst mér að Össur tók ekkert eftir því að “skúffuféð” svonefnda er löðrandi í geðþóttaákvörðunum um annað en góðverk. Löðrandi af kjördæmapoti. Löðrandi af eyðslusemi fyrir kosningar. Auðvitað efast enginn um réttmæti þess að ráðherrar hafi tiltekin auraráð. Þetta er löglegt fé. En jafnframt eru margar ákvarðanirnar um ráðstöfunina ekki boðlegar og ýmsar siðlausar. Til þess eins fallnar að ráðherrar geri sig breiða á kostnað okkar skattborgarana.

 

Já mikið á sá gott sem getur slegið sig sjálfur til riddara og síðan hreykt sér af því. Það getur félagi Össur gert og er alveg ófeiminn við. Engin er að efast um að mörg þessara verkefna eru þörf og eðlilegt að styrkja. Spurningin er hins vegar hvort það sé eðlilegt að styrkur sé undir því komin, að maður þekki mann.

 

Líka er hægt að velta fyrir sér að ef fólk telur eðlilegt að skúffufé sé til staðar, en aðstæður eins og í sumum ráðuneytum nú að mest allt skúffufé sé uppurið. Þarf þá ekki fjárveitingarnefnd að koma til og gauka smá fé að þeim ráðherrum sem tóku við tómum skúffum? (Eins og t.d. í utanríkisráðuneytinu).


Lífshættulegur leikur á ísköldu Þingvallavatni

 

þingvellir batur
Smellið á myndina til að stækka

 

 

Það er gaman að eiga góðar græjur, og það er gaman að geta notað þessar græjur sér og öðrum til ánægju. En hinsvegar krefst það líka ákveðinnar ábyrgðar. Sérstaklega þar sem börn eru. Í dag var ég á Þingvöllum, þar varð ég vitni að vítaverðu athæfi fullorðins fólks. Það var búið að smíða einhverskonar pramma ofan á gúmmíbát með utanborðsmótor. Á prammanum var fólkið svo búið að koma sér fyrir með sólstóla og veiðistangir. Þarna átti augljóslega að hafa það náðugt. Ég læt meðfylgjandi myndir segja allt sem segja þarf  um bátinn. Það sem sló mig var að á prammanum voru 2 börn og hvorugt þeirra var í björgunarvestum, ekki frekar en hinir fullorðnu. Á prammanum var hundur sem gekk laus. Ég reikna með að flestir viti hversu kalt Þingvallavatn er. Ef eitthvað fer úrskeiðis á svona pramma eru bjargráðin ekki mörg. Ef einhver les þetta blogg og þekkir þetta fólk, væri ráð að benda þeim á ábyrgðarleysið.

 

 

 

þingvellir batur 2

 

 

 

þingvellir batur 3

 

 

 midnættiÞessi var tekin um 11.30 og enn hefur bæst við á pramann.

 

Myndirnar eru allar teknar með 12 sinnum optical súmmi úr töluverðri fjarlægð.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband