Könnunarleikur

Í mörgum leikskólum þar sem yngstu samborgararnir (1-2ja ára) dvelja er könnunarleikurinn svonefndur afar vinsæl aðferð yngstu barnanna til að rannsaka umhverfi sitt. Undirstaða rannsókna þeirra er auðvitað fyrst og fremst þeirra eigin forvitni og skynjun, en umhverfið er líka skipulagt á tiltekinn hátt. Þannig að það styðji við og ýti undir könnunarþörf barnanna. Börn nota flest skynfæri sín í könnunarleik, þau skoða, snerta, hlusta, sleikja. Þau pæla í jafnvægi, rými, afstöðu og fleira og fleira. 

Undirbúningur könnunarleiks

Til að undirbúa leikinn er starfsfólkið búið að safna saman ýmiskonar skapandi endurnýtanlegum efnivið, s.s. rörum, hólkum, keðjum af ýmsum lengdum og grófleika, krukkulokum, niðursuðudósum, steinum, skeljum og ýmsu fleiru sem vekur áhuga barnanna.  Þaegar leikið er með efniviðinn er honum komið fyrir á tilteknum stöðum og hvert barn velur sér í fyrstu eina hrúgu/tegund til að kanna.

Hlutverk starfsfólks 

Hlutverk starfsfólksins er aðallega að nýta tímann til að gera skráningar á nálgun og rannsóknum barnanna. Í könnunarleik gefst oft dýrmætt tækifæri til að setja sig í stellingar rannsakandans en ekki þess sem leiðir. Næmir og athugulir leikskólakennurum fá í gegn um skráningar innsýn í hugarheim barna og einstakt tækifæri til að kynnast þeim. Hér að neðan fylgja með myndir sem ég tók í heimsókn í leikskóla í London s.l. vor af könnunarleiksefnivið.

100_5735 100_5737 

Efniviður í könnunarleik

Tiltekt 

Mikilvægur þáttur aðferðarinnar er tiltektin að leik loknum. Í gegn um tiltekt læra börn að para saman og flokka. En hvorutveggja er undirstaða stærðfræðináms barna. Reyndar má segja að könnunarleikurinn sem slíkur sé afar mikilvæg undirstaða margra námsþátta.

Hugmyndafræði

Hugmyndafræði könnunarleiksins er m.a. rakin til leiks barna að ýmsu sem til er á heimilum og við munum mörg, eins og töluboxum, pottum og pottlokum. Hann byggir á gamalli hefð og þekkingu sem hefur verið sett í nútímabúning. En samtímis þróaður sem leið fyrir leikskólakennarann að kynnast því hvernig barnið rannsakar umhverfi sitt og hvernig það nálgast önnur börn í gegn um könnunarleikinn. Víðast er könnunarleikurinn lagður þannig inn að starfsfólkið segir ekkert á meðan á leik stendur. Sjálfri finnst mér það það ekki spennandi. Ekki alltaf. Kannski var upprunalega hugmyndin að hjálpa starfsfólki út úr því hlutverki að taka alltaf fram fyrir hendur barnanna (og það er raunverulegt vandamál víða í leikskólum), ég veit það ekki. Hins vegar held ég að hægt sé að þróa könnunarleik eins og aðra leiki og aðferðir. Mesta hætta hverrar aðferðar er að telja hana vera hina endalegu lausn. Í því eru endalokin falin. 

 börn í könnunarleik

Fyrir um 10 árum þegar ég kenndi áfanga um yngstu börnin við Háskólann á Akureyri byggðum við hann meðal annars á bók eftir höfunda aðferðarinnar. (Þær skrifa líka um lykilpersónur, aðferð sem víða er notuð í starfi með yngstu börnunum). Höfundar eru þær Elinor Goldschmied & Sonia Jackson, og bókin heitir, People under Three, Young Children in Day Care (2nd editon), Routledge, London & New York, 2004. Ég skrifaði líka grein í fréttabréf leikskólakennara 1999 (minnir mig) um leikskóla sem ég heimsótti á Spáni sem beitti aðferðinni og sem notaði fjársjóðskörfur til að mynda tengsl á milli barna og starfsfólks. Einhverjir leikskólar hafa líka fengið stryki úr þróunarsjóðum til að vinna með könnunarleikinn. Hildur Skarphéðinsdóttir, þá leikskólaráðgjafi vann ötullega að innleiðingu hans.

Sturlubarnið og könnunarleikur

Ástæða þess að ég blogga um þetta nú er að ég hef í sjálf verið að nota aðferðina hér heima með Sturlubarninu. Hólkar í ýmsum stærðum sem hann leikur með, (og pappaspjöldin sem hann hefur með) er dæmigerður efniviður í könnunarleik. Annar dæmigerður efniviður sem hann hefur verið mjög upptekinn af undanfarna daga og getur dundað sér löngum stundum við eru öll krukkulokin sem ég geymi, stór og smá. Hann er búinn að henda þeim, setja inn í hvert annað, taka þau til, sleikja þau og naga. Þegar hann kemur leitar hann að þeim og er afar glaður þegar hann finnur þau. hann getur dundað lengi með lokin. Á föstudaginn á meðan við mamma hans horfðum á handboltaleikinn við Spán sat hann hinn glaðaðsti og undi sér við með lokin. Þegar leiknum líkur leggjum við mikla áherslu á að hann hjálpi okkur að taka til. Setji lokin ofan í plastboxið sem ég geymi þau í. Tiltektin verður þannig hluti af leiknum, eitthvað til að hlakka til.

Pappi og hólkar 2

Erlendar slóðir um könnunarleikinn og fjársjóðskörfuna

http://www.treehuggermums.co.uk/articles/parenting/article.php?article=236 

http://www.amazon.co.uk/Little-Book-Treasure-Baskets-Books/dp/1904187056/sr=8-1/qid=1172496766/ref=pd_ka_1/202-6491585-6891824?ie=UTF8&s=books 

http://www.parent-forum.com/facts/hmain.htmlhttp://www.southfailsworth.oldham.sch.uk/page14/page25/page57/page57.html

Íslenskar slóðir um könnunarleikinn

http://www.seltjarnarnes.is/manabrekka/namskra/uppeldisstefna/konnunarleikur/ 

http://bestibaer.nordurthing.is/?mod=gallery&album=/Foss/2007/Konnunarleikur-guli_hopur&fun=viewAlbum

http://www.skagafjordur.is/photogallery.asp?cat_id=2148

http://www.tjarnarsel.is/Deildir/Manavellir/Myndir/?path=Controls/mynd&Groups=174&Page=1 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk Kristín alltaf hægt að treysta á þig Tók einmitt hluta af dótinu frá þér fram í morgun, ekki að spyrja að því - það sló í gegn

Svava Björg Mörk (IP-tala skráð) 25.8.2008 kl. 20:34

2 identicon

Þakkir héðan. Stenst ekki að vísa á þessa færslu í skólasamfélaginu. Takk - takk.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 26.8.2008 kl. 08:44

3 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Takk bæði **)

Kristín Dýrfjörð, 26.8.2008 kl. 09:19

4 Smámynd: Bergljót Hreinsdóttir

Við innleiddum könnunarleikinn á yngstu deildinni á Marbakka í fyrra og ég er rosalega ánægð með árangurinn...þetta er tær snilld....

Fyrsta stig stöðvavinnunnar og frábær vettvangur til skráninga....

Bergljót Hreinsdóttir, 30.8.2008 kl. 19:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband