Taka sig af markaði

Það er orðið ósköp langt síðan ég hef bloggað, ég hef meira segja velt fyrir mér að loka blogginu mínu alfarið. Taka það af markaði eins og sagt er í fjármálaheiminum. Svo staldra ég við  og ákveð að bíða aðeins sjá hvort skrif-andinn fari nú ekki að gagntaka mig á ný. Það er ekki eins og ekki sé úr nógu að velja til að hafa skoðun á og fjalla um.

Pólitíkin hefur verið afar fjörug. En samt valdið mér vonbrigðum. Ég átti von á að fleiri og sterkari kandídatar gæfu kost á sér hjá Samfó hér í Reykjavík. Finnst hábölvað að þurfa yfirhöfuð að kjósa í Reykjavík norður. Velti fyrir mér hvort ég neyðist kannski til að skila auðu (svo get ég náttúrlega strikað út ansi marga hef í gegn um tíðina stundum gert það svona til að friða samviskuna). Það er slæm tilfinning að geta ekki talað fyrir flokknum sínum. Það er slæm tilfinning að hafa varið hann út yfir gröf og dauða í haust, viljað gefa honum tækifæri en uppgövta svo að það var misnotað. Það er slæm tilfinning að sitja uppi með.

Já, það er hægt að blogga um pólitíkina. Nú stendur Samfylkingin frammi fyrir formannavali. Margir sjá Dag sem framtíðarforingja ég er ekki eins viss. Þessa daga tel ég að best færi á því að Jóhanna gefi kost á sér. Hún á mitt atkvæði sem er nú nokkuð sagt. Ég á það nefnilega til að vera nokkuð pólitískt langrækinn og átti lengi erfitt með að fyrirgefa Jóhönnu það sem ég kalla aðför að leikskólanum. Það var fyrir langa löngu um 1990. Held reyndar að hún hafi bara haft svona slæma ráðgjafa. En út í þá sögu ætla ég ekki að fara hér.     

Svo gæti ég bloggað um Sturlu, hann er auðvitað ekkert nema frábær. Ég skrapp á bókamarkaðinn um daginn og keypti nokkrar bækur handa barninu. Meðal þess alfræðibók um ránfugla ætluð 8 -11 ára lesendum. Eins og ég vissi er hún þegar í uppáhaldi hjá 18 mánaða barninu. Hann flettir henni fram og til baka og bendir á alla fuglana. Hann sýnir mér hvernig á að gera kló og grípur um handarbakið á mér. Málið er að hann er gagntekinn af fuglum, sérstaklega krummum og bendir á þá hvar sem hann sér þá. Í bókum, úti í náttúrunni, ég ákvað að ýta undir þetta áhugamál hans. Kenna honum að skoða bækur með þessum uppáhaldsdýrum hans, fuglum.  Það er líka til skemmtilegur vefur með fuglum Íslands, myndum og myndbandsbrotum, við skoðum hann stundum. Það er gaman að segja frá að hann kemur með stóru bókina um ránfuglana sem hann getur varla haldið á, til okkar og segir, lesa.   

Um helgina fórum við Lilló með Sturlu í fertugsafmæli, þar var spilað á fiðlu. Fyrst spiluðu litlu frændur hans fallega á fiðlurnar sínar og svo tóku proffarnir við. Systir og mágur hennar mágkonu minnar. Sturla sat flötum beinum á gólfinu og hlustaði á þau með öllum líkamanum. Svo klappaði hann eftir hvert lag. Hann var líka svo heppinn að þau leyfðu honum að strjúka fiðluboganum eftir strengjunum.

Hann er á skemmtilegum aldri drengurinn svo nóg væri hægt að blogga um það (ég held náttúrulega að öll börn séu á skemmtilegum aldri en það er annað mál). 

Ég hef líka verið í símenntunarprógrammi síðustu vikurnar, tekið þátt í að skipuleggja nýjan leikskóla sem er að opna. Ég hef lært mikið að því góða fólki og bíð spennt eftir að fá að fylgjast með því þróa starfið sitt næstu vikurnar.  

Jæja ætli það sé ekki gott að enda hér, taka inn þriðja skammtinn af fúkkalyfjunum og ofnæmislyfjunum jafnvel koma sér í koju.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband