Í þjóðleikhúskjallaranum

Ég fór á fundinn í leikhúskjallaranum í kvöld. þegar ég nálgaðist leikhúsið heyrði ég óminn af mótmælunum. Hverfisgata var full og sundið að Landsbókasafninu líka. Ég stakk mér í gegn um hópinn og fékk að fara inn. Þar mættu mér lögreglumenn í fullum klæðum. Eftir fundinn heyrði ég að stjórn Reykjavíkurdeildarinnar hefði beðið þá að fara. Þeir færðu sig efst í bílastæðahúsið á móti þar sem þeir gátu haft yfirsýn. Þetta var góður fundur og mikill hugur í fólki. Ég þekkti mikið að fólki þarna. Flokksfólki sem hefur fylgt Samfylkingunni að máli frá upphafi. Þarna voru líka fulltrúar úr sveitarfélögunum í kring. Í gamla daga fót ég oft í leikhúskjallarann, það var fleira fólk þar nú en ég hef áður séð á þeim stað, stappað.  

 

Á fundinum mælti enginn ríkisstjórnarsamstarfinu bót. Skildu kannski að það hefði verið nauðsynlegt að gefa stjórninni sjéns í haust en sáu hins vegar ekki þann árangur sem stefnt hefði verið að. Nú væri þessi tími tilrauna búinn. Þingmennirnir okkar voru líka beðnir um að íhuga því að sleppa að fara í framboð næst, vera svo kurteisir að draga sig í hlé. Rætt var um að sjálfsögðu yrði að vera prófakjör, enda annað varla lýðræðislegt.

 

Í upphafi fundarins komu nokkrir unglingar inn og vildu hleypa upp fundinum.  Veit ekki hvers vegna, vegna þess að ég taldi hann einmitt áfanga að því sem mótmælin hafa stefnt að, koma á breytingum, stuðla að nýjum kosningum. Virkja lýðræðisleg öfl. Eftir smá stund fóru flestir unglingarnir, hinir sem eftir voru ákváðu að hlusta. Notuðu pottana sína til að klappa með þeim með okkur hinum. Inni, fundum við lykt af reyk fyrir utan og við heyrðum óminn af pottaglamrinu og trumbuslættinum.

 

Á fundinum var okkur boðið að fara út um brunaútganga, svona til að þurfa ekki inn í þvögu mótmælenda. Nei, nei, sagði fólkið við förum út um þar sem við komum inn. Við erum stolt af okkar flokki og okkar verkum. Út gengum við stolt.

 

Eftir að út var komið þá stóð ég fyrir neðan tröppurnar þegar Ásgeir las upp ályktun fundarins. Mótmælendur létu ganga til hans gjallarhorn. Sumir ætluðu að hrópa hann niður, hinir ussuðu á þá. Gefið manninum hljóð. Ungur anarkisti dró frá andlitinu og tók upp símann sinn. hringi í mömmu og sagði; "mamma þú verður að heyra þetta. Við erum búin að vinna". Og svo hélt hann símanum upp í átt að gjallarhorninu. Ég var líka spurð af ungum mótmælendum hvað þetta þýddi, "væri ríkisstjórnin fallin?" "Nei ekki enn - en afleiðingin verður fall hennar" sagði ég. "Það gerist næstu daga úr þessu" sagði ég. Það var hátíðarstemming fyrir utan og flestir fögnuðu saman. Nú veit ég ekki hvernig einhverjum gat dottið í hug að Samfylkingarfélag Reykjavíkur gæti eitt og sér slitið stjórnarsamstarfinu en það er ljóst að þetta var með fjölmennari fundum, þarna voru þingmenn að hlusta. Þetta var og er baklandið þeirra og þeir fengu mjög skýr skilaboð. Skilaboð sem þeir geta ekki horft framhjá. 

 

Hinn almenni samfylkingarfélagi vill út úr þessu bandalagi dáðaleysis.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Loksins.  Nú riðar ríkisstjórnin til falls. Lifi byltingin!!

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 22.1.2009 kl. 03:33

2 identicon

Kristín, gott að fá yfirlit frá þér af fundinum, þakka þér og þakka Merði og félögum að gefa baklandinu tækifæri á koma fram með sínar skoðanir. Vonandi að forysta okkar samfylkingarfólks vakni af værum blundi og brjóti upp þetta stjórnarsamstarf áður en við missum meira af heiðarlegu fólki úr flokknum. Þetta samstarf við bláa hagsmunabandalagið verður okkur til ævarandi skammar, því lengur sem það varir. Tími okkar er kominn ásamt þeim, er ekki tóku þátt í sukkinu að byggja upp nýtt þjóðfélag jafnaðar af grunni græðginnar sem hefur heltekið þetta þjóðfélag undanfarin ár. Burt með óþurftarfólkið og þeirra hyski, sem hafa komið okkur í skítinn. Þeirra er ekki þörf við uppbygguna, þó þeir haldi öðru fram með þrásetu og hræðsluáróðri.

alfreð guðmundsson (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 07:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband