Ljósmyndaáhugi Sturlubarnsins

Ég var víst búin að gleyma því að ég var ráðin sem sérstakur upplýsingafulltrúi Sturlubarnsins, foreldrarnir gerðu það að mér óspurðri. Tilkynntu mér að vegna eigin leti hefðu þau afráðið að mér bæri mér að sjá um að halda uppi fréttum af honum fyrir ættingja um víða veröld. Langa færslan hér á efir er til að ég verði ekki rekin fyrir að standa mig ekki í stykkinu.

Í dag kom Sturlubarnið í smá heimsókn, átti að sofa allan tímann en reif sig upp eftir tæpan klukkutíma. Vissi sem var að hann fengi fulla þjónustu. Við vorum reyndar með hann í göngutúr svo að pilturinn fékk að setjast upp í vagninum. Hann horfði á fólkið og hló. Nú er hann nýbúinn að fatta að bretta upp á efri vörina og fitja aðeins upp á nefið þegar hann brosir og okkur finnst það svo fyndið að við hlæjum. 

Sturlubarnið er nú ekki enn farinn að sleppa sér, fer í varlega könnunarleiðangra meðfram öllum húsgögnum og veggjum ef því er að skipta. Hann er líka búinn að uppgötva að sumstaðar hanga myndir sem hann hefur áhuga á neðarlega á veggjum. Hann er mjög upptekinn af ljósmynd af okkur systkinum frá því að við vorum smábörn. Hann sýnir henni sömu viðbrögð og þegar hann  kemur auga á hund, kött eða þegar hann sér börn, hann kætist allur og fer að iða. Líka þegar hann sé börn á mynd. Þegar hann nær myndinni af okkur reynir hann sitt besta til að koma henni á gólfið. Annars klappar henni bara svolítið harkalega. 

Í dag fór ég og náði í lítinn dráttarvélarvagn úr tré. Hann er síðan strákarnir voru litlir. Vagninn er með bandi og þó að Sturlubarnið vilji ómögulega sýna hvað hann er stór, tók hann svona hálfa mínútu að fatta að kippa í bandið og þá kom vagninn, aftur og aftur, höndin meira að segja sett aftur fyrir öxl til að ná betra togi og sveiflu. Ég held að þetta með að sýna hvað hann er stór, honum finnist það frekar heimskulegt. Miðað við hvað hann hefur gott verkvit að mati ömmunnar ætti hann að ná þessu. En ég held að hann sjái bara ekki tilgang. Mamma hans ætlar samt ekki að gefast upp, ætlar að kenna honum þetta. Keppnismanneskjan í henni kemur fílefld fram. Hann á að ná þessu, en hann kann að gefa fimm, náði því eins og skot.  

Nú fetar hann sig meðfram öllu líka borðum sem eru í hans hæð. Ef hann sér glitta í bók reynir hann sitt besta til að ná í hana. Í dag reyndi hann að ná í bók af sófaborðinu í sjónvarpsherberginu, sinnti engu mun áhugaverðari leikfangi sem hann átti þar. Afi skildi ekkert af hverju hann reyndi ekki að ná í dótið, ég sagði að það væri af því að hann vissi innihald bókarinnar, hún fjallar um rannsókn á yngstu börnum leikskólans. Er einmitt byggð upp á lýsingum á því sem börn eru að gera og túlkun á því. Höfundurinn er að nota nýstárlega aðferð til að gefa börnunum rödd. Annars getur Sturlubarnið núna fært hluti á milli handa þegar hann stendur, ef hann þarf að ná á þeim betra taki og ef hann þarf að setjast. Hann getur nefnilega alveg staðið óstuddur. Í dag þurfti hann að leysa það að setjast niður með bókina. Til þess varð hann fyrst að koma henni á milli handa, styðja sig við borðið, fara niður á hnén og þaðan í sitjandi stellingu. Auðvitað kláraði hann þetta, verkvit segi ég. Vona samt að hann láti bókahilluna vera, enn um sinn. Nóg að tæta þar. 

Ég verð að viðurkenna að mér finnst gott að sjá hvað hann er varkár í að taka fyrstu skrefin. Hann er reyndar farinn að leggja í könnunarleiðangra hér hjá okkur. Skreppur fram þó enginn sé þar. Búinn að uppgötva hurðina inn á kló. Meira að segja farinn að sýna stigagatinu áhuga. Held reyndar að það tengist því að oft þegar hann kemur er afi niðri og Sturlubarnið á vona á að sjá hann koma upp tröppurnar. Þegar hann kemur inn kemur hann alltaf brosandi í fangið á mér en lítur svo fljótlega í kringum sig. Lítur þá gjarnan í áttina að stiganum, niður.  

Við keyptum hókus pókus stól um daginn, nú situr hann þar stundum og fær cerios hringi, það er svolítið síðan hann náði valdi á pinsettugripi á annarri hendi nú hefur hann náð því á báðum. (Pinsetta - að grípa með þumalfingri og vísifingri) og getur raðað ceriosinu, já eða brauðinu upp í sig. Hann er matargat hið mesta og ég held að uppáhaldsmaturinn hans sé bíójógúrt með mangóbragði. Alla vega þegar hann er hér. Jæja, ætli þetta fari ekki að verða nóg af ömmumonti í bili og starf upplýsingafulltrúans hlýtur að vera öruggt enn um sinn.    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir skemmtilega færslu -

kveðja, Síta

Síta (IP-tala skráð) 16.7.2008 kl. 12:38

2 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Takk, ég leit inn hjá Þór Jökli áðan, hann er flottur og sætur strákur. Já þetta er skemmtilegt hlutverk sem okkur hefur verið úthlutað.  

Kristín Dýrfjörð, 16.7.2008 kl. 14:35

3 identicon

Mér líst vel á nýja upplýsingafulltrúastarfið þitt. Skemmtileg lesning

Bestu kveðjur í bæinn

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 17.7.2008 kl. 02:30

4 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Já, sá annars að sonurinn hafði skrifað:

Þar sem að við foreldrar erum svo léleg í að skrifa nýjustu fréttir af Sturlu þá höfum við ákveðið að ráða tvo reynda penna til að sinna þessu fyrir okkur. Þetta er það sem bandaríkjamenn kalla "outsourcing" og/eða "delegating".

og mín túlkun - upplýsingafulltrúi, en kannski er það bara ágætis starfslýsing, þeir eru jú víst sannarlega oft leigupennar tiltekinna sjónarmiða, ekki satt?

Kristín Dýrfjörð, 17.7.2008 kl. 02:48

5 identicon

Sæl frænka, ömmuhlutverkið er bara stóra hlutverkið ,mér finnst gaman að fylgjast með ykkur í ömmu-og afahlutverkinu,við hjónin erum að missa okkur í þessu dásamlega hlutverki og lifum hreinlega fyrir prinsessuna okkar, en bestu kveðjur á stórfjölskylduna frá Biddý siglófrænku

Brynhildur Baldursdóttir (IP-tala skráð) 17.7.2008 kl. 07:47

6 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Takk Biddý, alltaf gaman að hitta frænkur sínar og kveðjur til baka á Siglufjörðinn.

Kristín Dýrfjörð, 17.7.2008 kl. 14:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband