Átak sem leiddi til kaffihúsasetu og aukinnar þekkingar á málefnum eldri borgara

Ég er í átaki, sem felst í því að skreppa alla vega einu sinni á dag út úr húsi. Það getur nefnilega verið hættulegt að vinna alltaf heima. Heimili, vinnan, frítíminn, og það heila verður að einum graut. Núna ákvað ég að skunda einn hring í kringum tjörnina. Ákvað samt að fara inn í Ráðhúsið vegna þess að oft eru þar áhugaverðar sýningar sem gaman er að reka nefið inn á (það samræmist meginmarkmiðinu að vera á ferli og fara út úr húsi).

Að detta inn á málþing - einmana gamalt fólk

Á leið minni í gegn um Ráðhúsið datt ég inn á málþing um stöðu eldri borgar, þar var verið að kynna nýja rannsókn sem unnin var á meðal fólks yfir áttrætt hér í borginni. Ég gat auðvitað ekki stillt mig um að stoppa og hlusta. Komst að því að það er um 5% hópur í þessum aldurshóp sem af eigin sögn hefur það skítt, fjárhagslega, tilfinningalega og heilsulega (auðvitað ekki sömu 5% í öllum tilvikum). Um 5% fá sjaldan eða aldrei heimsóknir, eru einmana. Eins og sama hópastærð í leikskólanum. Í Reykjavík eru þetta milli 200-300 manns yfir átrætt.  

Rannsóknir sýna að það getur verið manninum lífshættulegt að vera einmana til lengri tíma. Þessar upplýsingar sem og niðurstöður rannsókna á meðal barna og unglinga eiga að vekja okkur til umhugsunar. 

Sóknarnámskeið áður fyrr 

Á málþinginu hitti ég Þórunni Sveinbjörnsdóttur fyrrum formmann Sóknar og síðar varaformanns Eflingar. Hún er nú hætt, gat ekki hugsað sér fleiri kjarasamninga. Hún sagði mér að hún sé að vinna að ótrúlega skemmtilegu verkefni, að taka saman sögu námskeiða og starfsþróunar hjá Sókn/Eflingu - skoða hvernig námskeiðin og námsleiðirnar hafa þróast. Heyrðist hún enn vera pínu vonsvikin yfir okkur leikskólakennurum - við soldið fastheldin og ósveigjanleg í réttindamálum leiðbeinenda. En hvað um það - við rifjuðum líka upp að ég kenndi oft slatta á námskeiðum Sóknar í gamla daga þegar ég var leikskólastjóri. Sagði Þórunni að einn leikskólastjóri hefði einmitt rifjað það upp með mér um daginn að hún hafi fyrst hitt mig sem leiðbeinandi í leikskóla á námskeiði hjá Sókn. Seinna fór hún í KHÍ og er núna leikskólastjóri - held í sama leikskólanum og hún hóf feril sinn innan leikskólans. (hefur reyndar komið við á fleiri stöðum í millitíðinni). Þetta sannaði fyrir okkur Þórunni að það skiptir máli að hafa tækifæri til að mennta sig til allra starfa innan leikskólans. Ekki endilega til að verða leikskólakennari eða stjóri, heldur til að hafa gleði og ánægju af vinnu sinni.  Verða betri í því sem maður er að gera.

 

Ráðhúskaffið 

Þegar öllu lauk, ég búin að samskipta settist ég inn á Ráðhúskaffið - þar bauð vertinn mér í tvöfaldan expressó, fyrir aðstoð í vetur.  Sit þar nú og sýp á mínu kaffi og hlusta á hroturnar í fastagestinum. Ferkar vinalegt.

Best að klára tjarnarhringinn og koma sér heim í æestur verkefna.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband