Af dónaskap mínum og frammistöðu fyrrum bogarstjóra í gær

Það var dónaskapur af minni hálfu í gærkveldi að minnast ekki annarra erinda á ráðstefnunni. Sue Dockett  sagði okkur frá rannsóknum sínum á meðal barna í Ástralíu. Hún fjallaði m.a. um siðferðileg álitamál rannsókna og meðal þess neikvæð áhrif hennar eigin rannsókna á aðstæður barna í skólum. Í Ástralíu virðist vera gríðarleg þörf fyrir miklu eftirliti með börnum, þannig jafnvel að þau séu aldrei úr mögulegri augnsýn kennara. Meðal þess sem Sue hefur rannsakað eru leyndir staðir og einkarými barna í skólum. Afleiðingin hefur verið að þegar hún kemur í suma skóla er búið að "taka fyrir" og útrýma þeim stöðum sem börn hafa trúað henni fyrir. Koma í veg fyrir að þau geti átt sitt einkarými.

Ég er undir sterkum áhrifum frá ýmsu sem ég sá í Reggio Emilia í vikunni. Þar er lögð áhersla á að börn geti einmitt búið til og átt slík einkarými. Á einni deildinni sem ég kom á voru nokkur börn búin að fá nóg að heimsókninni og náðu sér í bókastandinn sem er á hjólum og drógu hann út í horn. Þau komu sér þar fyrir 4 og lásu í bókum. Ég spurði leikskólakennarann hvort þau væru að búa til sitt einkarými, já sagði hún, þetta gera þau mikið sækja líka teppi og loka sig af með bækur eða dýr eða eitthvað annað sem þau hafa áhuga á. Þegar Sue svaraði spurningu Umboðsmanns barna um hvað henni væri minnistætt úr æsku, svaraði Sue því til að það væri einmitt  lítil kofi úti í garði - að hafa möguleika til að leika án þess að vera undir stöðugu eftirliti hins fullorðna.

Dagur B. Eggertsson ræddi um minningar sínar úr leikskóla, ýmislegt var þar kunnuglegt. En kannski var það frjálsræði sem hann lýsti einkennandi. Dagur átti salinn og ekki síst þegar hann hvatti leikskólakennara til að vera stoltir af sínu, leikskólinn ætti að standa upp og hrópa þetta kunnum við. Viljið þið ekki læra af okkur. Hann taldi að betra væri að vinnubrögð leikskólans smituðu upp i grunnskólann en grunnskólans til leikskólans. Það leyndi sér ekki að hér var hann að ræða um hugmyndir um fimm ára bekki.

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir sleit svo ráðstefnunni með stuttri samantekt úr erindum.

Ráðstefnan bar það ágæta nafn Raddir barna, kannski er það tímanna tákn að fyrir allmörgum arum hélt félag leikskólakennara ráðstefnu undir heitinu Rödd barnsins, en nú er þetta ekki lengur ein rödd heldur margar. Þetta er sem sagt kórsöngur en ekki einsöngur. þegar Hildur Skarphéðinsdóttir, skrifstofustjóri Leikskólasvið var að setja ráðstefnuna vitnaði hún m.a. í bók Þórbergs Þórðarsonar um Sálminn um blómið, en svo skemmtilega vill til að fleiri af fyrirlesurum höfðu einmitt hugsað til Þórbergs við undirbúning erinda sinna. Ég held að það séu varla til betri lýsingar á þroska barna en einmitt Sálmurinn um blómið. Kannski að hún ætti að vera skyldulesning í kennaranámi.

Að lokum ætla að fá að vitna beint í hana hér áður en okkar eigið Sturlubarn kemur í heimsókn án foreldra.

Litli sannleiksleitandinn sem hann Sobeggi afi hafði haldið, að alltaf yrði eins og hann Gvuð, var að ummyndast i óskahugsara. Það, sem hún þráði, að væri satt eða ósatt, það varð að vera satt eða ósatt. Hún var að verða eins og stóra fólkið. Hún var að byrja hlutverk sitt í hinum mikla sorgarleik mannkyns.   (úr Sálminum um blómið)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Pistlar þínir eru konfekt...kv  gb

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 20.4.2008 kl. 13:34

2 identicon

Ég er sammála síðasta ræðumanni - þeir ættu að vera skyldulesning - hálsbólgu og kvef kveðjur úr Ægisgötunni

Síta (IP-tala skráð) 21.4.2008 kl. 21:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband