Er "óvart" verið að búa til bakdyraleið að samræmdu leikskólastarfi?

Eins og fram hefur komið hef ég fagnað framkomnu frumvarpi menntamálaráðherra um leikskólann. En þrátt fyrir svona almennt jákvæða afstöðu til þess eru nokkur atriði sem ég hef velt vöngum yfir og haft af nokkrar áhyggjur. Áhyggjur um ýmsar afleiðingar til lengri tíma litið. 

Út í hinum stóra heimi hafa undanfarin ár verið að takast á tvö gagnstæð sjónarmið í leikskólafræðum. Annarsvegar þar sem nefnt hefur verið þroskamiðað – byggt á hugmyndafræði um  m.a. þroska barna og uppglötunarnám og gildi skapandi starfs og leiks. Segja má að undir þetta sjónarmið sé sterklega tekið í fyrirliggjandi frumvarpi. Hitt sjónarmiðið sem hefur verið ríkjandi í Bretlandi, Bandaríkjunum, Hollandi, Frakkalandi og Belgíu byggir á fræðslu og kennslumiðaðri starfsemi. Starf í leikskólum sem líkjast hugmyndum flestra um núverandi grunnskóla.

Í greinargerð með frumvarpinu er þessari leið hafnað. Hins vegar velti ég fyrir mér hugsuninni á bak við að aldurs- og þroskatengja næstu aðalnámskrá eins og boðað er í frumvarpinu. Sú sem nú er í gildi hefur verið afar víð og innan hennar hafa flestar leikskólastefnur getað staðsett sig. Þegar ég svo tengi umræðuna um aldurs og þroskaviðmiðin við 16. grein frumvarpsins um þær upplýsingar sem eiga að fara á milli skólastiga verð ég vör um mig. Eins og greinin er orðuð nú eiga leikskólar að senda allar upplýsingar sem þeir telja að gangi geti komið á milli skólastiganna, án samþykkis foreldra. Taka verður fram að Persónuvernd ríkisins hefur þegar gert athugasemd við orðalagið. Hinsvegar er boðuð reglugerð með frumvarpinu og þar á sjálfsagt að kveða nánar á um hvaða upplýsingarnar eiga að fara á milli.

Ef ég tengi umræðuna við fljótandi skólaskil, og við umræðuna um fimm ára bekki hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík, þá setur að mér hroll og ég verð uggandi. Uggandi yfir því að þarna sé verið að búa til bakdyraleið að skóla- og fræðslumiðuðum leikskólum, verið sé að boða einhverskonar formlegt mat á börnum. Mat sem kemur til með að vera meira stýrandi um innra starf en t.d. aðalnámskrá. Líka stýrandi um hvaða börn teljast TILBÚIN fyrir næsta skolastig og hvaða börn þurfa frekari LEIÐRÉTTINGU við á leikskólastiginu. Að með því beinist starfið í átt að því að aðlaga starfið “samræmda prófinu” sem leggja á fyrir barnið. Við höfum sporin að varast. Reyndar get ég ekki skilið þá grunnhugmynd að barnið eigi að vera tilbúið fyrir skólann en skólinn ekki tilbúinn fyrir barnið. Enda hugmynd sem er fjarri flestum leikskólakennurum.

Á vegum hinna ýmsu alþjóðastofnana sem hafa málefni og menntun barna á sinni könnu er sífellt verið að vinna að stefnumótun. Hana ber alla að sama brunni, að hinni norður- og mið-evrópsku hefð, áherslu á þroska, skapandi starf og nám í gegn um leik.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Kristín.
Þetta er mikið rétt sem þú ert að segja. Ég hef lengi fylgst með Bretum og málefnum leikskóla þar í landi. Sem betur fer eru að verða breytingar á hugmyndum um leikskólastarf þar í landi. Við skulum átta okkur á því að Bretar bjuggu við þvílíka íhaldssemi í menntamálum í áratugi á meðan að íhaldsflokkurinn réði þar ríkjum. Því miður þá er sem hugmyndafræði breskrar íhaldssemi sem er verið að leggja af þar í landi sé "inn" hjá ungum íhaldsmönnum sem eru komnir til valda hér á landi. Kannski ekki skrítið því þeir hafa margir menntað sig Bretlandi. S.l vetur voru oft áhugaverðir þættir um leikskólastarf og mikilvægi leiksins í starfinu. Bretar fóru að líta til Norðurlanda í meira mæli. Þeir hafa tekið eftir því að þrátt fyrir að börn fari ekki í grunnskóla á Norðurlöndunum fyrr en 6 og 7 ára  eru þau mun fremri þeirra börnum í öllum Evrópskum könnunum. Mjög hátt hlutfall breskra barna eru ólæs um 12 ára aldur. Hér getur þú séð einn af þeim þáttum sem sýnir voru á TeacherTV  http://www.teachers.tv/video/12090

Ég var nú bara svo einföld að ég hélt að þegar Þorgerður Katrín talaði um fljótandi skil milli skólastiga að þá væri hún að tala um að foreldrar mættu hafa börnin sín áfram í leikskólanum ef þeir óskuðu þess. Mjög margir foreldrar vilja hafa börnin sín áfram í leikskólanum, því þar eru börnin að þeirra mati í betra námsumhverfi.

Ég vona svo sannarlega að foreldrar í Reykjavík sæki ekki skólavist í þessum fjórum grunnskólum heldur sjái hag barna sinna betur borgið í leikskólanum.
Takk Kristín fyrir að vera svona dugleg að halda umræðunni á lofti, það þarf svo sannarlega á því að halda. Vildi reyndar gjarnan að félagið okkar gerði það með einhverjum hætti. Ætti ekki að vera einhver nefnd í félaginu sem heldur umræðufundi um svona nokkuð?

Kær kveðja,

Fjóla Þorvalds.

Fjóla Þorvaldsdóttir (IP-tala skráð) 29.2.2008 kl. 21:22

2 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Takk Fjóla, áhugavert og gott yfirlit. Ég hef einmitt bent nemum á teachers tv, margir flottir þættir þar. En þar sést líka í mörgum þáttum hversu "skólamiðað" starf er oft með leikskólabörnum.

Varðandi félagið- hefði ég haldið að menntaráð eða nefnd Félags leikskólakennara, já eða stjórn félags leikskólakennara og grunskólakennara ætti að standa saman að umræðufundi um málið, fá eins og einn bláan pólitíkus úr Reykjavík til að vera með stutt innlegg, einhvern úr röðum félagsmanna eða okkur úr kennaramenntunarstofnunum til að vera með innlegg (hæsta lagi 10 mín hvort. Og svo umræður, alls ekki að fólkið sem verður með innlegg eigi að sitja fyrir svörum, heldur við leikskólakennarar að ræða málið frá mismunandi sjónarmiðum.

Nú eða stjórn 1. og 2 deildar standi að svona fundi, eins og oft var gert í "gamla daga", man eftir fjölmennum fundum um ýmis efni þegar ég var enn í félagsmálum.

Svo myndi ég vilja heyra frá fólkinu í nefndinni sem skrifaði upp á þessi ósköp og lagði þau til.  Ég hef t.d. heyrt því fleygt að þetta hafi ekki verið einróma samþykki allra sem þar voru. Þeir sem voru í minnihluta hafi e.t.v. bara ekki áttað sig á rétti sínum til að skila séráliti. því miður situr það fólk uppi með að hafa nafnið sitt spyrnt saman við þessa ákvörðun lengi.

Hér má sjá skýrsluna sjálfa. Á bls. 24 eru niðurstöður kynntar um leikskólann og fimm ára bekkina.

Kristín Dýrfjörð, 29.2.2008 kl. 21:44

3 identicon

Sæl.

Já ég ætti kannski að senda þeim stjórn í 2 deildar beiðni þess efni að haldinn verði opinber fundur um málið. Kannski lesa þau bloggið þitt?

Á bls. 12 í skýrslunni kemur það einmitt fram að það er jafnt hlutfall foreldra sem vill að börnin fari fyrr í grunnskóla og þeir sem vilji að þau verði lengur í leikskóla eða 10%.
Ég vil gjarnan sjá tilllögu sem kemur á móts við jafn fjölmennan foreldrahóp sem vill að börnin verði áfram í leikskólanum.
Kveðja,

Fjóla

Fjóla Þorvaldsdóttir (IP-tala skráð) 29.2.2008 kl. 22:02

4 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Sæl aftur það gæti verið gaman að fá að mæta á slíkan fund ég vona að hann verði þá opinn fyrir áhugafólk um málið en ekki bara félagsfólk ef af verður.

En varðandi seinkanir þá er það að mínu mati prinsipp mál að skólinn sé tilbúinn fyrir börnin en ekki börnin fyrir skólann. Mér finnst skilin á milli skólaskila ásættanleg eins og þau eru nú.

Nú eru víða reknir fimm ára bekkir að þeir sem vilja geta sett börnin sín í þá.  Persónulega vil ég ekki sjá breytinguna í hina áttina. Frekar að í grunnskólinn komi á móts við öll börn með öðruvísi fyrirkomulagi í einhverjum 6 ára bekkjum.  

Kristín Dýrfjörð, 29.2.2008 kl. 23:15

5 identicon

Alltaf jafn gaman að lesa síðuna þína. Ég fyllist alltaf eldmóði og langar mest að fara að læra leikskólafræði, nú eða heimspeki menntunar. Áhugaverð umræða um 5 ára bekkina sem þú hefur komið af stað.

Annars kíkti ég inn núna til að sjá hvort þú hefðir bloggað um þingið sem þú talaðir á um helgina um kirkju og skóla. Var að lesa síðu séra Svavars og langar að fá þína sýn á umræðuna. Bíð spennt.

Kveðja frá Nicaragua, Gerður

Gerður Gestsdóttir (IP-tala skráð) 10.3.2008 kl. 16:00

6 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Sæl efsta færslan (þessi um öskurkeppnina) er reyndar um þingið - erindi mitt meðtalið, gott að ég get fengið einhvern til að langa til að læra leikskólafræði, sem mér finnst náttúrulega bara frábært.

var einmitt í dag að ræða við nemana um fag og starfs - stoltið. Hafðu það svo gott í landinu langt í burtu.  

Kristín Dýrfjörð, 10.3.2008 kl. 17:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband