Það liggur eitthvað stórkostlegt í loftinu

Þrátt fyrir aðför sjálfstæðimanna í Reykjavík að leikskólanum finnst mér þessa daga eins og ég sé að upplifa eitthvað merkilegt. Eitthvað sem er alveg einstakt. Tilfinning sem ég fann sterkt fyrir þegar við leikskólakennarar tókum risaslaginn. Þegar við forðum því að leikskólinn skilgreindist sem félagslegt úrræði en var staðfestur sem skóli þar sem menntun færi fram. Það var árið 1991. Ég ásamt mörgum félögum mínum vörðum mörgum stundum á þingpöllum. Við ræddum við alla sem við þekktum og voru tengdir í pólitík, við leikskólakennarar tókum höndum saman, hvar í flokki sem við stóðum og stóðum saman sem ein manneskja. Við skipulögðum fundaferðir um landið til að stappa stálinu í fólk, til að efla liðsandann, ferðirnar fengu það fræga heiti Amma Dreki. Við fengum foreldra í lið með okkur, við fengum samfélagið í lið með okkur.

 

Í dag varð ég spurð hvort nýr amma Dreki væri í uppsiglingu. Það er nefnilega svipuð stemming í loftinu. Kannski er þetta eitthvað sem gerist þegar við upplifum að við þurfum að verjast með kjafti og klóm. Það vita allir sem þekkja mig að ég er stéttafélagssinni sem stóð eitt sinn í framvarðarsveit leikskólakennara. En það skal enginn misskilja svo að vörn mín snúist um að verja hagsmuni leikskólakennara. Í siðareglum leikskólakennara (þeim sem giltu alla vega þegar ég var þar félagi og ég vona að ég hafi tileinkað mér) var ein fyrsta skylda okkar, skyldan gagnvart hagsmunum barna. Undan þeirri skyldu get ég ekki hlaupist og ef einhverstaðar eru eftir mig marðar pólitískar tær, verður bara svo að vera. Það batnar. En eyðilegging eins og nú er boðuð á leikskólakerfinu, hún batnar ekki á viku. Enn um sinn boða ég því tátroðslu.

 

Hvað er það sem gleður mig svona? Það sem gleður mig er að mér finnst vera vakning gangvart skapandi starfi, skapandi efnivið, skapandi hugsun. Vakning gagnvart gagnrýninni hugsun, gagnvart forvitni og rannsóknum barna. Gagnvart því að lifa í núinu og vera til staðar í núinu. Gagnvart því að setja alla hugsun á haus og hugsa upp á nýtt, frá nýrri sýn, úr nýrri vídd. Þessa daga er ég að hitta fólk út um allt þjóðfélagið sem spyr, hvernig er hægt að efla skapandi starf og hugsun? Margir leita til mín til að fá upplýsingar um starfið í Reggio Emilia. Eru forvitnir um þá tilraun sem er þar í gangi og hefur verið s.l. 50 ár. Í Reggio er fólk stundum spurt, hvaða rannsóknir getið þið sýnt okkur um að starfið virki. Þau svara gjarnan, samfélagið okkar er okkar besti vitnisburður.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flottur pistill - Takk

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 21.2.2008 kl. 22:37

2 identicon

Já. ...það er gerjun í gangi... það er greinilegt. 

Hörður (IP-tala skráð) 21.2.2008 kl. 23:40

3 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Takk bæði **)  og Hörður fannst þér þessi tími um 1990 spennandi? Mér finnst ég rosalega heppin að hafa fengið að lifa svona mikla leikskólasögu.

Kristín Dýrfjörð, 21.2.2008 kl. 23:55

4 identicon

Mér finnst eiginlega alltaf vera spennandi tímar. Eitthvað man ég eftir að hafa stungið niður penna af því tilefni að til stóð að vista málaflokkinn í Félagsmálaráðuneyti.

Í kjölfar laganna sat ég svo í ráðherraskipaðri nefnd sem leggja átti drög að reglugerð. Þar hélt ég fram því sjónarmiði að nær væri að barnafjöldi á deild tæki mið af menntun starfsmanna fremur en fermetrum í húsinu. Það var hlegið að þessum hugmyndum, sem mer finnast ekki hafa versnað með tímanum.

Á þessum árum var ég þó kominn af vettvangi leikskólans og sinnti málefnum barna úr annarri átt. En það er gaman að vera mættur á svæðið aftur og mér finnst eins og oftast núið vera meira spennandi en fortíðin.

Hörður (IP-tala skráð) 23.2.2008 kl. 21:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband