Byggingasvæði leikskóla - jafnréttissvæði

Af byggingarsvæði í Stokkhómskum leikskóla

Í vikunni fékk ég nýja sænska bók um byggingarleiki í leikskólum (Bygg og konstruktion i förskolan). Bókin er eftir sænskan leikskólakennara Miu Mylesand, sem reyndar hefur komið til Íslands og haldið erindi um efnið á vegum HA. Hluti af bókinni fer í að lýsa því þegar gamli leikskóli barnanna Trollet í Kalmar var rifinn og nýr byggður. M.a. er sagt frá samstarfi barna, arkitekta og verktaka.

En mest fjallar bókin um byggingaleiki og byggingasvæði í leikskólum. Mikið er lagt upp úr fjölbreyttum efnivið, þar er ekki sama hreinstefnan í gangi og finna má í mörgum íslenskum leikskólum. Í bókinni er sagt frá því þegar þau ákváðu að færa bæði bíla og dúkkuhúsadótið inn á byggingarsvæðið, og í leiðinni útvíkka hugmyndir sínar um hvað er byggingarefni. Síðan er fjallað um hvaða áhrif það hafði á leik barnanna. Í bókinni veltir Mia töluvert fyrir sér kynjuðum leik barna, hvað og hvernig hægt er að hafa áhrif á hann.  

Rætur jafnréttisumræðunnar rekur Mia til 1993 þegar eitt foreldrið fór að velta fyrir sér og spyrja um hvort að starfsfólk ynni öðruvísi með stelpum en strákum. Foreldrið vildi fá að vita hvort að stelpur og strákar léku sérstaklega með einhvern efnivið og hvort þemum væri skipulögð þannig að meira tillit væri tekið til annars kynsins.

Þessar vagnaveltur leiddu til þess að þau ákváðu að skoða málið og komust að því að strákarnir voru ráðandi við ákveðnar aðstæður. Þau veltu fyrir sér hvernig hægt væri að mæta þessu og ákváðu að skipta stelpum og strákum eftir kyni á matarborðin og ákveðna daga væru börnin í kynjaskiptum hópum.  

Hugmyndafræðin var að leyfa stelpunum og strákum að takast á við verkefni á eigin forsendum, en ekki forsendum hins kynsins. En þrátt fyrir að stelpunum var t.d. skapaður tími og vettvangur til að byggja, höfðu þær engan sérstakan áhuga. Með tímanum náðu þær þó einhverri færni en byggðu samt aðallega einar til að byrja með. Mia segir að þetta hafi leitt til þess að þau "normaliseruðu" allar stelpur og ákváðu þeim tiltekna eiginleika út frá kyni, og sama hafi átt við um strákana. Þetta sá hún þegar hún leit í baksýnisspegilinn, en segir jafnframt að það jákvæða við þessa tilraun hafi verið að hún/þau fóru að gera sér grein fyrir áhrifum þess hlutverks sem starfsfólkið valdi sér á barnahópinn.  

Mia segir að það hafi verið með uppeldisfræðilegri skráningu sem hún hafi uppgötvað eigin fordóma og staðalmyndir, og þær hafi hjálpað að taka næsta skref. Sjálf hafi hún t.d. trúað því að strákar byggðu mannvirki s.s. vegi og hús á meðan stelpurnar vildu byggja í kring um dýrin og dúkkudótið (staði þar sem félagsleg samskipti ættu sér stað). "Þegar ég sá að stelpurnar vildu gjarnan byggja með falllegum litríkum kubbum og hafa ríkt efnisval opnuðust augu mín". Uppeldisfræðilega skráningin breytti sýn hennar og hún segist skynja að öll börn byggja ólíkt eins og þau skynja veröldina í kring um sig á mismunandi hátt. 

 

Mia segir að það sem þau hafi sem sé uppgötvað að því ríkari sem efniviðurinn er því meiri möguleika bíður hann upp á, í leik og sköpun. Möguleika til að endurskapa veröldina og þá reynslu sem börnin búa yfir. Þannig hafi bæði leikurinn og meðferð barnanna á efniviðnum þróast.

Í dag 14 árum seinna segist Mia ekki sjá mun á því hvernig kynin leika á byggingarsvæðinu. Ef börn frá unga aldri eru með leikskólakennara sem leggja áherslu á byggingarleiki, að bæði stúlkur og drengir byggi, þá verða bæði kynin byggingameistarar segir Mia. Að kynjaskipta börnunum var fyrir þau fyrsta skrefið upp úr hjólförunum, í gegn um uppeldisfræðilega skráningu fundu þau út að ákveðinn efniviður hugnaðist stelpum betur. Þau gerðu sér grein fyrir að ef byggingarsvæðið átti að verða fundarstaður beggja kynja og allra barna, yrði efnið þar að höfða til allra barna.

Hugmyndin er ekki að börn eigi að byggja vegna þess að það er hollt og gott, heldur vegna þess að byggingarsvæðið er svæði þar sem nám á sér stað, þar sem börn fá tækifæri og næði til að þróa færni og hugmyndir. Þess vegna krefst byggingarsvæðið líka mismunandi efniviðar. En á Trollet trúir fólk því líka að byggingarleikir og hlutverka- og þykjustuleikir eigi heima hlið við hlið, að á milli þeirra sé brú sem börnin eru síflellt að krossa. Vegna þessa sjónarmiðs á margt núna heima á byggingarsvæðinu sem áður átti heima á tilteknum stöðum eða hornum í leikskólanum .

Fólkið á Trollet hefur verið upptekið af því að pæla í hvað styður við byggingaleikinn, hvernig efnivið þarf til að byggja rosa hátt, hvaða efnivið þarf til að skapa undirstöður og jafnvægi, hvaða efniviður lokkar stúlkur og drengi að byggingarsvæðinu. Þau hafa verið upptekin við að skoða hvernig börn smita hvert annað af byggingaráhuga, hvernig hægt sé að styðja við þá hugmynd á meðal barnanna að það sé jafn mikilvægt fyrir stráka og stelpur að byggja "fallegar" byggingar.   

Bókin er annars hafsjór hugmynda og pælinga um byggingarleiki og hvet ég flesta leikskólakennara til að verða sér út um hana.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Áhugaverð bók  hvar fær maður slíka bók?

kveðja,

Svava Björg Mörk (IP-tala skráð) 30.10.2007 kl. 09:24

2 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Sæl Svava þú getur farið inn á sænska bóksala og skellt inn nafni og  höfundi, er annars gefin út af sænska kennarasambandinu. Var að biðja um að hún yrði keypt á HA safnið, vonandi kemur hún þangað fyrir jól.

Kristín Dýrfjörð, 30.10.2007 kl. 21:24

3 identicon

Takk fyrir þetta

Svava Björg Mörk (IP-tala skráð) 31.10.2007 kl. 12:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband