"Trúarskólabúðir"?

Víða í hinum vestræna heimi hefur fólk miklar áhyggjur af trúarskólum múslima. Að börn séu send frá Evrópu til Pakistan til að sækja skóla þar sem trúarleg innræting fer fram. Þar sem þau eru mótuð til að verða hermenn Alla. Í kvöld var sýnd í sjónvarpinu myndin Jesúsbúðirnar. Þar sem öllum tólum markaðssetningar, þar sem þekkingu auglýsingariðnaðarins, sálfræðinnar og leikshússins var beitt til að innræta börnum trú á Jesús. En þeim var líka komið í skilning um að ef þau ekki játuðu hina einu sönnu trú, næði djöfulinn tökum á þeim. Þeim var sýnt með leikrænum tilþrifum hvernig syndin læðist að þeim og vex og vex þar til hún tekur stjórn. En ekki bara það, heldur voru þau látin biðja fyrir Bush og kónum hans, látin arga gegn fóstureyðingum.   

Í viðtali sagðist leiðtogi svona skóla skilja mikilvægi þess að innræta börnum þetta fyrir 9 ára, þá væru meiri von um "árangur". Hún sagði líka kristna trú vera hin einu réttu trúarbrögð og að lýðræði væri óvinur þeirra, væri verkfæri djöfulsins. Börnin í búðunum hennar ræddu um sig sem hermenn guðs og sögðust vera að undirbúa sig undir stríð, stríð sem þau kviðu ekki, heldur hlökkuðu til, og jafnvel þó maður dæi fyrir málstaðinn væri það ekkert mál, því það væri fyrir guð. Kannski endaði maður jafnvel sem píslavottur.

Mér varð óglatt að horfa á þessa mynd, mér varð óglatt yfir hvernig farið var með börn í nafni trúarsannfæringar. Mér varð óglatt hvernig fólkið sem varð svona tíðrætt um djöfulinn og leiðir hans, nýtti sér markaðshyggjuna, nýtti sér þá þekkingu sem það var að fordæma. Vegna þess að hjá þeim var það svo, að tilgangurinn helgar meðalið.  Bandarísk trúarsamtök velta risafjárhæðum, þau eru heilt hagkerfi út af fyrir sig. Með skólabúðum eins og þessum er verið að tryggja viðgang þessa hagkerfis fyrst og fremst.

Mér varð óglatt

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þetta var alger viðbjóður og maður sat dofinn eftir.  Væri gaman að heyra álit Jóns Vals og Skúla hér á blogginu.  Þeir hafa varið þetta ofstæki og staðið fyrir því hér.  Hefði mátt efna til umræðna um myndirna á eftir þættinum, því hér er þjóðfélagsmein á ferðinni, sem menn verða að fara að ræða í fyllstu alvöru.  birtingarmyndir þessa eru til hér og hér er gamalt fólk og börn misnotað andlega og fjárhagslega af misvitrum óttatrúboðum og gráðugum hálfvitum.  Ef andlegt áreiti og fjárhagslegt áreiti, væri skilgreint í lögum, væru þeir sennilega allir á Hrauninu.

Jón Steinar Ragnarsson, 11.10.2007 kl. 02:52

2 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Sammála. Kannski væri ráð að í stað þess að þurfa að sjá misfarið með almannafé eins og gert var síðasta sunnudag, þegar Bjarni kom og fékk að vera vænn hjá Evu. Væru ræddar bíómyndir, bækur, blaðagreinar og heimildarmyndir um þjóðfélagsleg álitamál.  Og þá er ég ekki að tala um Silfrið sem venjulega dregur aðeins fram stjórnmálamenn. Heldur verið sett upp debatt. Það verður að segjast eins og er að við kunnum lítið fyrir okkur í þeirri list. Og því miður er afleiðingin að fólk kemst upp með furðulegustu hluti.

Já mér fannst ég vera að upplifa heiftarlegt ofbeldi gagnvart börnum í myndinni. Ofbeldi sem ef það væri annarskonar leiddi til forsjársviptingar og fangelsunar.

Í fjölskyldu sem ég þekki til hérlendis er barn sem átti (á) föður í svona söfnuði. Í hvert sinn sem hann kom úr sínum helgarferðum til pabba, átti hann erfitt með að sofa. Grét mikið og vaknaði með martraðir. Eitt skiptið var þetta heiftarlegra en áður. Þegar móðir og fósturfaðir gengu á piltinn, kom í ljós að hann var svo sorgmæddur því, mamma hans, fósturpabbi og litlu systkin mundu öll lenda í helvíti, því þau væru ekki frelsuð. Hann var á samkomum með pabba sínum og þetta sagði forstöðumaðurinn.

Kristín Dýrfjörð, 11.10.2007 kl. 03:16

3 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

ps. Ég held að sumir (nefni engin nöfn) sem tjá sig um trúmál hafi ekki horft á þetta með sama hrylling og við, heldur verið uppljómaðir yfir þeim tækjum sem guð hefur lagt þessu fólki í hendur. Því miður.

Kristín Dýrfjörð, 11.10.2007 kl. 03:19

4 identicon

Þarna blasti við hatur,fordómar,viðbjóður,stríðsæsingur
Þetta var djöfullegt og við skulum hugsa um það að þjóðkirkjan er byrjuð hér á landi.
Ekki hundsa það með að segja hana öðruvísi því eðli trúarbragða er að byrja sakleysislega og læðast að börnum okkar eins og svartur úlfur að nóttu, þar munu þeir sá fræjum fordóma og haturs undir formerkjum kærleika, þar munu þeir segja að kristni sé undir árás og að börnin verði að taka afstöðu gegn öllu öðru.
Welcome to lalaland

DoctorE (IP-tala skráð) 11.10.2007 kl. 08:50

5 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Því miður held að þetta sé rétt í einhverjum tilfellum, en held líka að alla vega innan þjóðkirkjunnar sé ekki mikið um svona helvítis prédikanir. En við höfum séð að jafnvel þjóðkirkjan kann að sýna klær ef henni finnst þurfa þykja. Held samt að enn sé það svo að meirihluti presta sé upp til hópa ekki ofstækismenn. Heldur mannúðarsinnar.

Mér sjálfri fyndist kirkja verða stærri ef hún léti af þessari markaðssókn sinni inn í skóla landsins. Léti foreldrum eftir að bæði ákveða og að vera með börnum sínum þegar krikja og barn mætast. 

Kristín Dýrfjörð, 11.10.2007 kl. 11:31

6 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

ps. Ég er ekki tilbúin að segja að það eigi að útskúfa öllum trúarbrögðum úr heiminum. Að þau séu öll "djöfulleg"  

Kristín Dýrfjörð, 11.10.2007 kl. 11:33

7 Smámynd: Flower

Ég vil sem lifandi trúuð lýsa hryllingi mínum á þessum þætti bara svo að þú vitir Kristín að það eru trúaðir sem ekki aðhyllast heilaþvott af þessu tagi.

Ég saknaði fræðslu um kærleika Drottins sem er mikilvægt að börn fái að heyra um áður en farið er í þyngri mál. Ég hef verið lifandi trúuð frá barnæsku og ég var ekki tilbúin á þeim aldri að bera allt sem hellt er yfir þessa krakka af þvílíku vægðarleysi. Þessi börn munu mörg þegar þau eldast snúa baki við kristnidómnum af því að þau hafa ekki fengið rétta mynd af honum. Sem er miður því að hann er jákvæðari en þessi mynd gefur til kynna.

Flower, 11.10.2007 kl. 12:08

8 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Já ég held að það sé alveg rétt hjá þér, Það fór lítið fyrir kærleika og elsku, aðallega voru þetta helvítis prédikanir. Fyrir mörg þessara barna verður þetta hryllileg minning, sem jafnvel skaddar þau. Sérstaklega þau sem eru viðkvæm fyrir. Það var og þess vegna sem ég benti á að ég teldi íslenska þjóðkirkjuklerka allflesta ekki vera í þessum flokki. En mér finnst líka ábyrgð foreldra vera mikil, í þættinum sýndist mér þau mörg hver vera jafn öfgafull og fólkið sem leiddi starfið. En hvað varðar rétta mynd, þá er þín mynd kannski jákvæðari, en þetta er birtingarform kristindómsins hjá þessum börnum. Hún er sú mynd sem þau þekkja. Ég er nokk viss um að þeir hershöfðingjar sem þarna réðu ríkjum, telja þína mynd vera útvatnaða útgáfu af trúnni.

Eins og ég sagði líka frá í dæminu hér að ofan er til hérlendis trúarhópar sem ástunda helvítisprédikanir, þar sem börn eru þátttakendur í samkomum. Samanber drenginn sem ég þekki vel og segi frá hér að ofan.

Kristín Dýrfjörð, 11.10.2007 kl. 12:39

9 Smámynd: Flower

Ég myndi sko láta þessa hershöfðingja þarna heyra það ef ég ætti kost á og það yrði ekki útvatnaður boðskapur heldur mun þyngra en það sem þau eru að lesa yfir þessum krakkagreyjum hehehe. Ég er ekkert að leyna því að það eru hliðar á minni trú sem tóna við þetta, en ég vil leggja meiri áherslu á kærleikann, hvað værum við án hans. Okkur er gefinn kærleikur og honum eigum við að miðla.

Flower, 11.10.2007 kl. 13:33

10 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Að sjálfsögðu á að leggja áherslu á kærleikann, enda held ég að við trúum flest á gildi mannræktar, umhyggju og virðingar, hvort sem við eigum lifandi trú eður ei. Sjálfa hryllir mig við þeirri tilhugsun að t.d. starfsfólk grun- eða leikskóla aðhylltust svona trúarviðhorf. Finnst þau eins langt frá mannrækt, virðingu og umhyggju eins og komist verður. og held að viðkomandi ættu dáldið erfitt með að skilja trúarsjálfið eftir heima. Teldu það sjálfsagt vera mannréttindabrot á sér. Og þá má beita "lýðræðinu". Enda helgar tilgangurinn meðalið.

Kristín Dýrfjörð, 11.10.2007 kl. 13:47

11 identicon

Ég er ekki heldur að segja að útríma beri trúarbrögðum, ég er að segja að útríma beri þeirri hugsun að hér séu umboðsmenn guðs sem viti meira en aðrir, ég er að segja að skipulögð trúarbrögð er ekki trú það er trúarvændi.
Trú er bara sá trúaði og hans guð, allt annað er plat og hræsni

DoctorE (IP-tala skráð) 11.10.2007 kl. 13:57

12 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Er reyndar sammála þér um hversu hún er hvimleið þessi forræðishyggja og þessi vissa fyrir því að vera betri og meiri en hin sem ekki trúa, sem einkennir marga skipulagða trúarhópa. Þetta er eimur af ákveðinni heimsvaldastefnu og jafnvel rasisma sem birtist með þessum hætti. Trú á að einhver einn geti verið stærri og betri en annar, verið meira virði sem manneskja. Við það get ég ekki sætt mig. Ég þekki margt trúað fólk, og ber virðingu fyrir því og trú þeirra, en ég vil líka fá að vera með mínar efasemdir í friði.  

Kristín Dýrfjörð, 11.10.2007 kl. 14:11

13 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl Kristín

Virkilega góð samantekt á myndinn hjá þér og þeim afleiðingum sem þessi trú hefur á Bandarískt þjóðfélag.  Því miður erum við farin að sjá vaxtarsprota á þessu rugli hérlendis einnig og við skyldum ekki halda að þetta gæti ekki gerst hér.  Fólk sem er kristið á hófsamari máta er fljótt að sverja þetta af sínum Jesú og tala um "kærleikinn" og annað slíkt.  Ted Haggart og stjórnendur evangelista í USA telur sig einmitt vera að tjá kærleika Jesú.  Allt kærleikur. 

Málið er að hinn breiði kristni grunnur leggur til jarðveginn fyrir bókstafstúlkunina.  Þegar einhver er farinn að trúa á heilaga þrenningu, upprisuna og annað yfirnáttúrulegt í Biblíunni (eða Kóraninum) er mun skemmra í að viðkomandi verði bókstafstrúar en manneskja sem hefur staðið sjálfstætt og hafnað hindurvitnum trúarbragðanna.  Eftir því sem hinn veraldlegi grunnur vex munu bókstafstrúarmenn standa meir uppúr sem óvenjulegir og virka meira ótrúverðugir en þeir gera í dag. 

Svanur Sigurbjörnsson, 11.10.2007 kl. 14:32

14 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Þá er spurningin er hinn veraldlegi grunnur að vaxa? eða er það bókstafsgrunnurinn sem vex? Í samræðu við bandaríska mágkonu kom upp umræða um tíundina sem hún borgar til kirkjunnar sinnar (sem er evangelísk). Málið var að þann sunnudag hafði presturinn farið fram á aukin fjárframlög frá safnaðarbörnunum og sagt að það að gefa tíund veitti þeim meiri blessun en hinum sem ekkert gáfu. Einhver spurði þá hvað með þá sem gefa meira en tíund, hvað fá þeir, í hverju er hagnaður þeirra fólginn?  Það fólk nyti enn meiri blessunar sagði presturinn.   

Sumir sem ég þekki og ekki vilja aftengja tengsl kirkju og ríkis hafa einmitt áhyggjur af svona málatilbúnaðir - ef opinbert veiðileyfi verði gefið út á sálirnar og þjóðkirkjan sett i samkeppnisumhverfi. Telja þá sé betra að hafa til þess að gera máttlausa þjóðkirkju en helvítisboðskap "frjálsra" kirkjudeilda.

Kristín Dýrfjörð, 11.10.2007 kl. 14:47

15 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Það var rétt svo að maður gæti horft á þennan hrylling. Er ekki nokkuð öruggt að svona nokkuð myndi varða við barnaverndarlög hér á landi? Myndi frænda mínum Gunnari Þorsteinssyni líðast svona starfsemi?

Friðrik Þór Guðmundsson, 11.10.2007 kl. 20:39

16 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Ja Byrgið var lagt niður, og þar var þó fullorðið fólk, verður bara að senda frænda þínum fyrirspurn hvort hann vilji nokkuð leggjast svona lágt, heldurðu nokkuð að sé svona illskeyttur eins og þetta lið var þarna í gær? Ég vona ekki.

Kristín Dýrfjörð, 11.10.2007 kl. 20:50

17 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Að sjálfsögðu á ekki að hvetja börn eða þjálfa til hermennsku, það brýtur og gegn Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna: Hinsvegar vil ég benda á að það er stigsmunur en ekki eðlismunur á hvernig farið er með börnin í bandarísku Jesúsbúðunum og því sem gert er í sumum íslömskum trúarskólum. ÞAð er verið að ala upp í hatri og fyrirlitningu. Því segi ég, maður líttu þér nær.

Kristín Dýrfjörð, 12.10.2007 kl. 13:16

18 identicon

Takk fyrir innlegg á blogginu mínu um málið. Ég ætla að bregðast við færslunni þinni hér af því að þú tekur svo vel saman það sem fram kom í myndinni og olli mestu ógleðinni hjá mér. Mér var, eins og þér, óglatt allan tímann sem ég horfði, ég varð líka reið, ég fylltist einhverjum vanmætti, fannst verða að stoppa þetta en fannst samt eitthvað svo vonlaust að berjast gegn því einmitt af ástæðum sem þú nefnir, þ.e. þetta er heilt hagkerfi og það hefur alveg ótrúleg völd eins og fram koma víða í myndinni. Ég er ekki enn komin yfir þessa mynd og segi eins og Friðrik, ég átti mjög erfitt með að horfa.

En eitt jákvætt í þessu kommenti: til hamingju með borgina

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 12.10.2007 kl. 15:45

19 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Takk fyrir það 

Kristín Dýrfjörð, 12.10.2007 kl. 16:21

20 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Varðandi hvort hinn veraldlegi grunnur sé að stækka?

Ísland

Ef tölur um skráningu í trúfélög eða utan þeirra má túlka sem ákveðna vísbendingu, þá er ljóst að Þjóðkirkjan fer hægt og bítandi minnkandi en fólk utan trúfélaga hægt fjölgandi.  Góður hluti af þeim sem skrá sig úr Þjóðkirkjunni fer einnig í fríkirkjusöfnuðina og er Fríkirkjan í Reykjavík í góðum vexti enda þar ákaflega húmanísk kristni á ferðinni, þ.e. ekki hangið í kreddum þar.  Árið 2004 sögðust 19.1% vera "ekki trúaðir", um 11% óákveðnir og 79% trúaðir en aðeins 49% kristnir.  Aðeins 8% trúðu á ferð sína til himna eftir dauðann.   Ég held að það sé áreiðanlega ákveðin pólarisering í gangi, þ.e. einhver fjölgun trúaðra en einnig fjölgun þeirra sem eru meðvitaðari um trúleysi sitt og fjölgun þeirra sem sjá að lífsskoðun þeirra passar vel við húmanisma.  Ég er ekki viss hvort að megi segja að veraldlegi hlutinn sé stækkandi þó þess séu nokkrar vísbendingar.  Næsta skoðanakönnun Þjóðkirkjunnar um "trúarlíf Íslendinga" á sjálfsagt eftir að skera úr um það.

Heimurinn:  Utan Evrópu fer hinn veraldlegi grunnur trúlega minnkandi þó á því séu góðar undantekningar.  Þróunin í USA veldur manni sérstaklega áhyggjum.  Ef republikanar vinna í forsetakosningunum á næsta ári fæ ég líklega kvíðahnút í magann.

Svanur Sigurbjörnsson, 12.10.2007 kl. 18:11

21 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Fínar pælingar Svanur. Ég kýs þó að gjalda varhug við "skoðanakönnunum Þjóðkirkjunnar". Það er meira að marka óháðar rannsóknir og kannanir, aðila sem hafa ekki hagsmuna að gæta af svörunum og haga kannski spurningum eftir því. Lífsgildakannanir Gallups frá fyrri árum voru ágætar. Þær sýndu meðal annars að margir Íslendingar telja sig trúaða, en þegar betur var að gáð var um e.k. spíritisma að ræða. Ekki trú á persónulegan guð, heldur einhvern óræðan lífsanda. Ekki á himnaríki heldur "líf eftir dauðann". Ekki trú á heilagan anda - heldur frekar innlit látinna og drauga. Þetta er ekki Evangelísk Lúterstrú. Við erum spíritistar. Og það er allt í lagi. Hófstillt og alþýðlegt og raunar mun mannlegra og betra en annað hvort trúarofstæki eða kalt trúleysi!

Friðrik Þór Guðmundsson, 12.10.2007 kl. 18:29

22 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Og ég ítreka áður undirstrikaða skoðun mína: Jesús-búðirnar eru ógeðslegar og eru ofbeldis- og heilaþvottabúðir og ekkert annað. Þær eru um það bil jafn réttmætar og uppeldisterroristabúðir ofstækis-múslima.

Friðrik Þór Guðmundsson, 12.10.2007 kl. 18:32

23 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Við bjuggum í Bandaríkjunum vorið 2003, við heyrðum málatilbúnaðinn og urðum vitni að því hvernig þjóðin snérist hægt og sígandi, við upplifðum hræðslu við að nýr MacCarthysima eða neo-MacCarthyisma næði fótfestu á ný. Þetta kom út í hræðslu um hvað "við" sögðum, við hvern og hvenær. Og hluti af þessu var í nafni trúar. Ég tek fyllilega undir áhyggjur af bandarísku samfélagi ef repúblikanar vinna.  Ég held að ég geti sagt að ég ber hlýjar tilfinningar til Bandaríkjanna, þar eigum við stóran frændgarð. En ég óttast sumt það fólk sem þar hefur fengið að vaða uppi, með samþykki þjóðarinnar. Sérstaklega er ég hrædd við það trúaofstæki sem fygir mörgum.

Kristín Dýrfjörð, 12.10.2007 kl. 19:00

24 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Friðrk Þór

Gaman að sjá þig í umræðunni.  Þessi Gallup könnun frá 2004 var á vegum Þjóðkirkjunnar og e.t.v. skein það í gegn þó að spyrjendurnir hafi tilmæli um að láta það ekki uppi hverjir borgi fyrir könnunina.  Þannig gæti einhver þrýstingur eða "bías" skapast en ég efast um að hann hafi marktæk áhrif.  Ég gæti haft rangt fyrir mér í þessu.

Já, af þessum 79% voru 30% "annarar trúar" en kristni, sem er ansi stórt hlutfall og endurspeglast í raun ekki í þátttöku (eða þátttökuleysi) í Þjóðkirkjunni sem er um 82%.   Stór hluti þessa 30% er líklega spíritistar eða það sem ég held að sé enn stærri hluti er þessi trú á "guðinn í sjálfum mér" eða "eitthvert æðra vald" eins og þú bendir á.  Þetta fólk er líklega laustengdara kirkjunni en þeir sem segjast kristnir en þó er það ekki víst.  Innan við 10% virðast hafa sterka kristna trú. 

Þú nefnir "kalt trúleysi".   Það væri spennandi að vita nánar um lífsskoðanir þessa 19% sem segjast "ekki trúaðir".   Ég efast um að nema mjög lítill hluti þeirra geta talist "kaldir trúleysingjar".   Það er varasamt að nota þetta hugtak því það er illa skilgreint.  Væntanlega er átt við að "kalt" sé í þessu samhengi "siðlaus" eða siðferðislega ábótavant, eða átt þú við þá sem reyna að fá aðra ofan af trú?  Er það kalt trúleysi?  Trúleysi er hugtak sem hefur mjög takmarkað gildi.  Það er eins og að segja "jólasveinalaus" um þá sem trúa ekki á tilvist jólasveinsins.  Það felst ekki nein lífsskoðun í hugtakinu.  Þannig þarf að finna hversu margir segjast aðhyllast manngildishyggju eða húmanisma eða almennt gott siðferði í anda mannréttindastefnu SÞ.  Ég hugsa að flestir trúleysingja hérlendis falli í þá hópa. 

Svanur Sigurbjörnsson, 12.10.2007 kl. 20:03

25 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Ég bjó í USA í 7 ár en reyndar í NA-horninu þannig að þar var ekki þetta trúarofstæki áberandi eins og myndin Jesus Camp sýndi.  Uppgangur og ríkidæmi Scientology kirkjunnar er þó skelfileg og hefur hún m.a. hreiðrað um sig á tveimur mjög áberandi stöðum (nálægt Times Square og við Central Park) í New York. 

Það var áberandi að börnin í Jesus Camp voru heilaþvegin til að fórna lífi sínu fyrir Jesú.  Maður sá fyrir sér að það tæki ekki nema nokkur skref til viðbótar í ítroðslu dauðlegrar hugsanavillu þannig að þau auðtrúuðstu og tryggustu myndu glöð sprengja sig í loft upp (eða fórna sér í Bandaríkjaher) í nafni Jesú fyrir leiðtoga safnaðarins.  Einn af styrkleikum myndarinnar var sá að ekki þurfti neinar útskýringar talaðar ofan í myndefnið. 

Svanur Sigurbjörnsson, 12.10.2007 kl. 20:11

26 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Við bjuggum nú reyndar í því  horni sem á að heita frjálslynt, í sjálfri Seattle borg, en ég held að margt hafi breyst í Bandaríkjunum eftir 11. september, ég fór t.d. á ráðstefnu í mars 2003 til Chicago, stóra fagráðstefnu og þar voru myndaðir hópar fólks sem var að styðja hvort annað í því að halda á lofti ákveðnum sjónarmiðum innan háskólanna. Hver hefði trúað því nokkrum árum fyrr að svo gæti verið komið fyrir bandaríkjamönnum að skoðanafrelsi væri í hættu. Allt í nafni Homeland Security.

Svo reyndar held ég að ég sé sammála þér Svanur um að flestir íslenskir "trúleysingjar" "trúi" á mannvirðingu og réttlæti.  en verð að játa að ég trúi staðfastlega á jólasveinana, enda jafn erfitt að afsanna tilvist þeirra og tilvist æðri máttar. Og þær hefðir sem þeir skapa og tengsl við forna íslenska menningu, t.d. í leikskólastarfi skemmtilegar að mínu mati.

og Lilló ég held að Gallup eða Félagsvísindastofnun framkvæmi flestar rannsóknir fyrir Þjóðkirkjuna. Og held að það sé alveg ljóst að Gallup segir ekki, þessi spurning er í boði Þjóðkirkjunnar eða Landsbankans (þegar verið er að spyrja um bankana,).

Kristín Dýrfjörð, 12.10.2007 kl. 20:26

27 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Með köldu trúleysi er ég ekki að meina siðlausu eða siðferðilega ábótavöntuðu (?) trúleysi. Frekar er ég að vísa til þeirrar þarfar róttækustu trúleysingjanna að afneita bókstaflega öllu, hvað eigum við að segja, yfirnáttúrulegu eða af öðrum og kannski vísindalega ísönnuðum víddum. Róttækur og harður, já kaldur, trúleysingi skrifar hatursgreinar um trú og andlegar væntingar, en umburðarlyndur trúleysingi skammast ekki út í fólk fyrir það eitt að trúa eða leyfa sér að vona að eitthvað sé "þarna úti".

Um stöðu trúarbragða í samfélaginu má hafa uppi gagnrýni án þess að vera trúleysingi, eins og þú veist Svanur minn. Til dæmis um kristniboð, ýmist ríkiskirkjunnar eða öfgatrúarhópa. Eftir að hafa horft á myndina um Jesúsbúðirnar fyrir börn liggur við að maður finni samúð með sjónarmiðinu um að best sé að hafa hófsama sunnudags-seremóníu ríkiskirkju, meinlausa sem hún oftast er, frekar en að hér vaxi ofsatrúarflokkum fiskur um hrygg (eins og Darwin myndi segja). Segi ég og spyr, sjálfur fyrrum oddviti Samtaka um aðskilnað ríkis og kirkju. Auðvitað á prinsippið að ráða för, en maður hugsar ýmislegt eftir að hafa horft á svona mynd og næstumþví séð Gunnar Þorsteinsson og Jón Val Jenson koma fram í henni (Nú kemur áreiðanlega komment frá Jóni Vali. Sæll Jón Valur, hvernig hefur þú það?).

Hvað sem þessu líður þá er auðvitað rétt að halda því til haga að þetta ofsatrúar-bush-repúblikana fólk sem opinberað var í téðri mynd er sannanlega takmarkaður minnihlutahópur í USA. Sem betur fer einkennast ekki Bandaríkin af svona barnaníðingsskap nema á afmörkuðum svæðum. Veit einhver hvað er að gerast í róttækustu trúfélögum okkar lands? 

Friðrik Þór Guðmundsson, 12.10.2007 kl. 20:39

28 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Ekki hugmynd nema það sem ég bloggaði hér að ofan um söguna af drengnum sem ég þekki og fékk martraðir. Sjálfsagt hafa þær ræður sem voru lesnar yfir honum verið lesnar af mikilli innlifun.  Ég þekki og á að vinum margt Hvítasunnufólk sem ég mundi treysta fyrir litlum ömmu og afastrák. Svo ég held ekki endilega að það sé samasemmerki á milli utan þjóðkirkju trúarhópa og ofstækis. Held að slíkir hópar séu til í öllum trúfélögum og líka innan dyra Þjóðkirkjunnar. Því miður.

Kristín Dýrfjörð, 12.10.2007 kl. 20:48

29 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Þér finnst það sem sagt kalt að gagnrýna hindurvitni og hugmyndir um eftirlíf þar sem það byggi á von fólks um eitthvað gott eftir dauðann.  Svona eins og að "taka vonina frá fólki" eins og oft er sagt.  Mér finnst það ekki kalt en ég vil ekki troða mínu sjónarmiði á fólk, þ.e. ég tek ekki upp þá umræðu nema að ég finni að fólk sé tilbúið að ræða það eða að vettvangurinn sé opinn öllum. 

Það sem ég get gagnrýnt suma guðleysingja fyrir er að vera of dómharða og ganga fram með háði og gífuryrðum.  Stundum eru reyndar sterk orð við hæfi og vekja fólk upp til umhugsunar um kolbrenglaðar hugmyndir sem það er orðið ónæmt fyrir.

Mér finnst það aftur kalt og skeytingarlaust að sýna enga tilburði til að leiðrétta fólk af ranghugmyndum þeirra.  Það er svo margt gott í raunveruleikanum til að hugga sig við, það þarf ekki gervilausnir til.  Gervilausnir og hindurvitni eru slæm til framtíðar og hafa tilnhneigingu til að breiðast út.  Gervilausnir draga úr aðlögunarhæfileika einstaklinganna og þegar þessar lausnir eru orðin af stórum kerfum sem draga til sín mannauð og fjármagn, er tapið orðið verulegt.   Vissulega er hægt að einbeita sér að því að byggja upp sinn eigin lífsmáta og láta hitt afskiptalaust, en því miður dugir það ekki til.  Lífið er bæði vörn og sókn.  Þegar gott fólk lætur slæma hluti afskiptalausa geta afleiðingarnar orðið hrapalegar.

Svanur Sigurbjörnsson, 13.10.2007 kl. 19:47

30 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Varðandi bókstafstrúarmenn í USA

Evangelistar telja um 80 milljónir manna í USA en ég veit ekki hversu langt leiddir þeir eru.  Hitt er ljóst að þeir hafa orðið gífurleg pólitísk áhrif og sama má segja um Mormóna.  Þá var það mér talsvert áfall að sjá Joe Lieberman öldungardeildarþingmann demokrata frá Connecticut ávarpa samkomu Christian Coalition for Jews sem er mjög öfgafull og bíður endurkomu Krists.  Liebermann var framarlega í forvali demokrata fyrir síðustu forsetakosningar.  Hann er nú reyndar hálfgerður republikani t.d. í utanríkismálum.  

Þetta er að gerast í USA m.a. vegna þess að hinn hófsami, veraldlegi ameríkani hefur sofið á verðinum.   Bandaríkin þurfa fleiri "kalda" guðleysingja til að vekja þá upp.

Svanur Sigurbjörnsson, 13.10.2007 kl. 20:22

31 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Við erum náttúrulega sammála um að dómharðir og kjaftforir trúleysingjar geri lítið gagn. Orð þín: "Mér finnst það aftur kalt og skeytingarlaust að sýna enga tilburði til að leiðrétta fólk af ranghugmyndum þeirra" eru athyglisverð. Hrokafull, auðvitað, en ég veit hvað þú átt við. Líka þetta með að stundum séu sterk orð við hæfi. En heldur þú virkilega að það myndi gera hið minnsta gagn að viðhafa kalda, skeytingalausa hörku gagnvart fólki sem er blindað af trúarofstæki? Ég held að áhrifameira væri að hunsa það!

Ég var rétt í þessu nánast að kalla þig hrokafullan. Það er auðvitað ekkert annað en hroki að segja trúleysi eina svarið, að trú sé bull og trúaðir vitleysingar og fábjánar sem þörf er á að koma vitinu fyrir. Það kann vel að vera að blessaða trúfólkið hafi aldrei og muni aldrei sanna tilvist guðs eða einhvers annars yfirnáttúrulegs fyrirbæris. En come on; það er ekki heldur búið að afsanna eitt eða neitt, er það? Eða eru trúleysingjar búnir að afskrifa afstæðiskenninguna og möguleikana á urmul vídda sem VIÐ skynjum ekki (en höfum kannski á ttilfinningunni að séu "þarna úti")? Hvað segir þú um að gerast ofur-vísindalegur og einblína á atómin nær og fjær. Við erum þá agnarlitlar örverur á pínulitlu atómi. Vetrarbrautir eru þá frumur og þá er stutt í frumuklasa og taugar og æðar og vöðva o.s.frv. - og voila: Lífveran "Guð" (eða Albert eða Agnes eða eitthvað). Sem auðvitað þýðir að inn í okkur eru agnarsmáar örverur sem hafa á tilfinningunni að einhver "Guð" sé til - sem einmitt er enginn annar en þú! Hvernig getur vísindamaður afneitað svona möguleika? Hvernig getur trúleysingi afsannað að svona geti í pottinn verið búið? Hvernig getur trúleysingi verið hrokafullur og dómharður og fullyrt að ekkert sé "þarna úti", maður bara fæðist, brölti um og deyi? Trúleysingjarnir vita EKKERT um það frekar en hinir trúuðu!

Við náttúrulega heyrum ekkert í örverunum inn í okkur. Séu þær að biðja til okkar vitum við ekkert um það!

Friðrik Þór Guðmundsson, 13.10.2007 kl. 22:07

32 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Held að þetta séu að verða skemmtilegasta umræðan á vefnum, strákar þið eruð farnir að slá pólitíkinni út (sem er meira að segja í sérstöku uppáhaldi hjá mér). Orðnir háheimspekilegir. Skil vel sjónarmið beggja en verð í anda póstmódernismans að segja að ég trúi á að til séu fleiri en einn sannleikur. Reyndar styðja ýmsir alþjóðlegir sáttmálar það sjónarhorn. Til dæmi Barnasáttmálinn og Mannréttindaskrá SÞ. sem báðar styðja við trúfrelsi (já, við höfum rétt til að trúa á karlinn eða kerlinguna á himnum eða anda í stokkum og steinum, eða ekki neitt, það eru mannréttindi). Ég get illa fellt mig við allt trúboð, hvort sem það er til að boða "trúleysi" eða "trú".  En ég vil halda úti skynsamlegri umræðu og ýta undir bæði gagnrýna hugsun og rökfræði. Kannski tekst þá hinum trúuðu að fá mig til a skilja sig eða hinum trúlausu að skilja sig.

Frægur sálgreinir spurði einu sinnu eitthvað á þessa leið: "Ef ég hef ekki séð köflótta fiska synda í Kyrrahafinu og enginn annar heldur, er það sönnun þess að þeir séu ekki til?"

Kristín Dýrfjörð, 13.10.2007 kl. 22:45

33 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Friðrik á ný

Þú talar um "kalda, skeytingarlausa hörku", líkt og það sé eini valmöguleikinn við það að gagnrýna hindurvitni.   Þegar ég er að tala um að leiðrétta fólk af ranghugmyndum þeirra er ég ekki að tala um að gera það í kulda og skeytingarleysi.  Ég er að tala um að gera það augliti til auglitis, án æsings, án hörku, án fúkyrða, án nafnakalla en með festu og þolinmæði, rökvissu og hugsun, mannvirðingu og hlustun, biðlund og tillitssemi.  Þetta gerir maður einungis ef viðkomandi vill ræða þessi mál og opinberlega í formi yfirlýsingar þar sem viðurkennd tækifæri eru til að iðka tjáningarfrelsi sitt.  Sama rétt hefur andmælandi minn.

Varðandi sterku orðin og háð, þá reyni ég alltaf að nota slíkt helst ekki en ef ég geri það þá er það yfirleitt bara gagnvart hugmyndunum en ekki einstaklingnum, nema að mér sé það ljóst að viðkomandi er viljandi að villa fyrir öðru fólki eða sýnir vítavert ábyrgðarleysi í tali sínu eða skrifum.  Mér blöskraði grein í Viku þessarar viku sem kom ókeypis með Morgunblaðinu í gær og nú á bloggi mínu hef ég hæðst að greininni og kallað heimildarmenn Sollu (3 bækur nefndar) lygalaupa.  Það er fágætt að ég taki svo sterkt til orða því mikill meirihluti þeirra sem eru í kuklinu eru í því af góðum ásetningi en það þarf hvílíka kænsku og færni í tilbúningi til að semja þessar bækur sem um ræðir að ég á bágt meða að kalla þær annað en lygi. 

meira síðar

Svanur Sigurbjörnsson, 14.10.2007 kl. 15:00

34 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl Kristín

Já þetta er áhugavert. 

Postmodernisminn eða hin siðferðislega afstæðishyggja kemur trúfrelsi ekki við.  Trú- og málfrelsi og svokallað samviskufrelsi eru algild siðferðisverðmæti sem einmitt þeir sem tala í anda menningarlegrar afstæðishyggju telja að séu ekki algild, heldur geti verið brjótanlega hjá t.d. múslímum, sem segja að staður konunnar sé á heimilinu en ekki úti að tjá skoðanir sínar.  Allt þetta á að þolast í nafni umburðarlyndis fyirr menningu og trú viðkomandi þjóðfélagshópa en er í raun hræsni gagnvart mannréttindum.  Ræður og rit Maryam Namazie sýna svo vel fram á þetta en þær má finna á blogginu mínu og síðum Siðmenntar.

Varðandi orð sálgreinisins.  Nú veit ég ekki í hvaða samhengi hann sagði þessi orð en ef það átti að vera einhver almenn skírskotun til alls sem maður getur ímyndað sér, þá ganga orð hans ekki upp.

Í fyrsta lagi er sönnunarbyrðin á þeim sem kemur fram með fullyrðinguna, ekki hlustandanum.  Aldur fullyrðingarinnar gerir hana ekkert trúanlegri eða réttari.   Þannig er fullyrðingin um að það sé "fljúgandi spagettiskrýmsli" (lesist einnig t.d. sem "guð") um sporbaug jarðar bara ósönnuð staðhæfing þar til sá sem kemur með hana eða heldur henni á lofti kemur með áþreifanlegar sannanir.  Hins vegar má segja um "köflóttan fisk" að slíkt sé mun sennilegra en t.d. guðshugmyndin og því gætu verið einhverjar raunverulegar líkur á því að slíkur fiskur sé til (því marglita fiskar eru sannanlega til), en eftir sem áður er ekki ástæða til að trúa staðhæfingunni fyllilega nema að flytjandinn komi með haldbærar sannanir. 

Svanur Sigurbjörnsson, 14.10.2007 kl. 15:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband