Kastljósið, leikskólinn og byltingarkenndar hugmyndir mínar um leikskólakerfið sem enginn hefur viljað hlusta á

Horfði á Kastljós í kvöld, fannst Björg formaður félags leikskólakennara standa sig í vel í umræðunni, hún benti m.a. á að það er engin trygging fyrir foreldra að einkavæða reksturinn – og ekki endilega betra fyrir starfsfólkið. Það hefur nefnilega sýnt sig að oft er lítið betur borgað í einkaleikskólunum og ekki víst að þar sé neitt fleira fagfólk. Þorbjörg Helga vildi meina að það væri mismunandi, sem rétt er. Björg benti henni þá á að mismun í fjölda fagfólks má líka finna á milli sveitarfélaga. Fannst áhugavert að heyra Þorbjörgu Helgu ræða um að hverfa aftur að því fyrirkomulagi sem einu sinni tíðkaðist að fyrirtæki rækju leikskóla og minnti hún í því sambandi á ríkisspítalana. Vil minna á að þeir hættu vegna þess að það samrýmdist ekki hlutverki þeirra að standa í leikskólarekstri og alls ekki eins og lögin gera ráð fyrir. Það var nefnilega löngum þannig í þeim leikskólum að ef foreldrar voru ekki á vakt mátti barnið ekki vera í leikskólanum. Skólinn var sem sagt ekki í þágu barna og ef foreldrar hættu misstu börnin plássin sín umsvifalaust. Hitt fannst mér eftirtektarvert hjá Þorbjörgu Helgu, að leikskólarnir ættu að tryggja sér fjármagn í reksturinn frá fyrirtækjum út í bæ. Væntanlega er þar verið að vísa til einkaskóla sem það hafa gert. Er ekki viss um að ef allir 70 leikskólar borgarinnar ætluðu inn á þau mið að það gengi upp. Hitt er, að ég er henni alveg sammála um að atvinnulífið þarf að koma meira á móts við foreldra.

  

Ég hef töluvert velt málum leikskólans fyrir mér. Ég stakk einhvertíma upp á því við fulltrúa R listans að þeir endurhugsuðu gjaldskrá leikskóla með það að markmiði að breyta starfsháttum þar og í leiðinni samfélagsgerðinni. Ég lagði til að 6 tíma vistun fyrir öll börn væri án gjaldskyldu en eftir það hver klukkutími rándýr og mun dýrari en heill dagur kostar nú. Að sjálfsögðu reiknaði ég með að tekið væri tillit til tekjuöflunarmöguleika einstæðra foreldra. Ég tel að þetta yrði til þess að fólk hagaði vinnu sinni á annan hátt – væri betra fyrir alla börn og foreldra og samfélag. Börn og foreldrar hefðu meiri tíma saman. Annað foreldrið færi þá fyrr til vinnu og sækti barnið á meðan hitt færi með það í leikskóla og inni kannski ögn lengri vinnudag. Hefði gjarnan viljað sjá hagfræðinga reikna út þjóðhagslegan ábata af svona kerfi. Þetta mundi líka stytta þann opnunartíma leikskólanna og gera starfið þar allt mun bæði markvissara og á vissan hátt léttara. Eins og staðan er núna er gríðarlega hátt hlutfall barna allt að 9 tímum á dag í leikskólanum. Eins mikið og ég tel leikskólann góðan og æskilegan held ég að 45 tíma vinnuvika sé of mikið fyrir 3 ára börn. Nú legg ég til að núverandi meirihluti í borginni skoði tillögu mína af alvöru, kannski er hún ekki bara lykill af betra mannlífi í borginni heldur líka að starfsmannavanda leikskólanna.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já þetta eru góðar tillögur Kristín, ég legg líka til að fleiri sveitafélög geri slíkt hið sama því ástandið er ekki bara bundið við borgina. Ég á erfitt sem leikskólakennari til margra ára að horfa upp á öll þessi litlu börn vera svo langan dag í leikskólanum sínum þau eru örþreytt og svo hitt sem verra er kannski staldrar sami starfsmaðurinn með þeim í mjög stuttan tíma eins og raunveruleikinn er í dag..... það er er ekki hægt að hafa þetta svona lengur það verður að breyta. Jenný

jenný Dagbjört Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 8.9.2007 kl. 11:12

2 identicon

Mér finnst þetta frábærar hugmyndir hjá þér og vona að þeir sem móta stefnu í leikskólamálum velti þeim alvarlega fyrir sér, þá meina ég hvernig þær yrðu best útfærðar.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 8.9.2007 kl. 11:26

3 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Sælar báðar ef þið lesið bloggið mitt nýja fattið þið afhverju ég hef ekki svarað - bara búin að vera uppfyrir haus. EN ég er í alvöru að vona að einhver vilji hlusta og pæla með mér. Eins og samfélagið er að verða í dag og ástandið er víða, er það ekki börnum bjóðandi. Ætla samt að spara stóru orðin aðeins. Ég geti ekki skilið að öll börn þurfi þennan langa dag - ég skil að sum börn þurfi það og sumri foreldrar en ... þurfum við ekki að fara að staldra við og hugsa málið lengra?  

Kristín Dýrfjörð, 11.9.2007 kl. 02:03

4 identicon

Sæl Kristín

Ég er alveg til í að hlusta og pæla með þér um leikskólamál. Ég er alveg sammála þér með það hvað börnin eru lengi á leikskólanum, þau eru með lengri vinnudag heldur en foreldrarnir. Sem nær ekki nokkurri átt.

Það er ekki hægt að bjóða börnunum upp á þetta, einnig finnst mér leikrými barnanna allt of lítið. Við myndum ekki sætta okkur við svona lítið pláss.

Einnig hef ég og hef haft miklar áhyggjur af því hvað við missum mikið af góðu og hæfu fólki af leikskólunum sökum launa. Starfsfólkið hefur ekki efn á því að vinna á leikskólum og fer því annað þar sem í dag er auðvelt að finna vinnu sem er miklu betur borguð.

Ég er sammála þér að við þurfum að hugsa málið lengra.

Kveðja, Sigga í Fögrubrekku

Sigríður Jónsdóttir (IP-tala skráð) 11.9.2007 kl. 17:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband