Bókahillan mín

Við áttum saman herbergi ég og yngri systir mín, okkur fannst þetta höll, því fyrir það höfðum við verið fimm systkinin saman í herbergi, aðeins elsta systir okkar fékk sérherbergi. Herbergið okkar var pínulítið og undir súð. Inn í það voru smíðaðar tvær rekkjur með rúmfatakassa. Þar var ekki mikið gólfpláss en við áttum saman eina kommóðu og svo áttum við sitthvora hilluna við rúmin. Systir mín er mesti snyrtipinni og hefur alltaf verið, hún hefur aldrei þolað drasl. Minn stuðull hefur allaf verið frekar hár, ef ég var með bók lokaði ég á umhverfið. Skynjun mín varð skynjun inn í bókinni. Lyktin sem ég fann var lyktin í sögunni, litirnir, voru litir sögupersónanna.

 

Systir mín kvartaði sáran yfir að þegar við áttum að taka til, þurrka af og þvo glugga (það þurfti reyndar aldrei að segja henni það) þá byrjaði ég í bókahillunni minni og ég komst aldrei lengra. Fyrst skoðaði ég steinana mína en svo þurfti ég aðeins að kíkja í bók. Og það verður að segja mér til skammar, ég held bækurnar hafi næstum alltaf átt vinninginn.

  

Núna er ég í sömu skrefum – ég hef lítið verið heima frá áramótum og búin að vinna mikið. Nú þarf ég sannarlega að gera skurk í tiltektarmálum – en sem fyrr byrjaði ég á bókastöflunum og er búin að vera föst þar. Ég er reyndar nokkuð viss um að draslið mitt fari ekkert og það skal fúslega viðurkennt að ég hef átt skemmtilega stund með gömlum vinkonum, bókunum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband