Svikin í tryggðum

Það er pínu skrítið hvernig allt getur lagst á eitt til að ergja mann. Ég hef einhverstaðar sagst vera aðdáandi ýmissa tækja sem ég tel sjálfri mér trú um að séu alveg nauðsynleg. Þegar synir mínir voru á unglingsárum tókst þeim oftar en ekki að fá mig til að sjá not fyrir óskiljanlegustu tæki.

Held ég hafi þetta frá Þorfinnu föðurömmu minni sem var alveg ótrúlega tækjavædd, eignaðist meira að segja ferðagrammafón upp úr 1960, en á honum hlustuðum við á Gullna hliðið í sumarbústaðnum í Fljótunum á dimmum ágústkvöldum í berjaferðum. Mér er sagt að á árunum um stríð hafi hún átt flottari myndavél en ljósmyndarinn í bænum. Og þegar við vorum unglingar sendi hún okkur rafknúið andlitsgufubað - til að hreinsa út bólur.

En aftur að mér, TÆKIN sem ég þarfnast mest og dái, ákváðu að gefast upp á mér – í vetur eru TVEIR harðir diskar búnir að krassa hjá mér, lyklaborðið í tölvunni sem ég er með ákvað að vera með einverja dikti og virka bara þegar því hentar – og stundum hentar því ekki að virka inn í miðjum setningum og stundum hentar að virka ekki mörgum sinnum á dag. Fékk reyndar að vita seinna að þetta er þekkt vandamál í þessari týpu. Allavega ég fór fram á að atvinnurekandinn skaffaði mér nýjan grip – skapvonska mín við tölvuna og leiðindi við að þurfa að setjast niður við hana voru farin að setja alvarlegt mark á vinnu mína.    

Leið og beið þangað til nokkrum mánuðum seinna, ég fæ bréf frá tölvudeildinni okkar – mín nýja langþráða er komin. Við fyrsta tækifæri fer ég að ná í gripinn hamingjusamari en orð fá líst. Sá fram á frjóa daga með tækinu, andlegt samband sem ég vissi að yrði jafnvel gefandi og ánægjulegt. Vissi líka sem er, ég þarf að sitja við í sumar.    

Eitt af því fyrsta sem ég þurfti að gera á þennan nýja grip var að klippa saman kynningarmyndband um kúrs hjá mér – til að sýna á fundi sem ég var á leið á í Svíþjóð. Þó svo að vinnustaðurinn leggi mér til tölvu er hún ekki að flottustu gerð – hún var nefnilega ekki með fire wire tengi – ég þurfti því að kaupa mér sérstakt kort og setja í pci rásina , sem ég og geri, plús viðeigandi hugbúnað sem tekur við HD myndböndum og hægt er að klippa þau í – nema þá slekkur gripurinn á sér búmm drepst. Reyni aftur, búmm dauð.   

Ég fer með hana til þjónustuaðilans og í ljós kemur að móðurborðið er ónýtt og það þarf að panta nýtt frá útlöndum. Af einstakri þolinmæði læt ég mig hafa það að bíða í tvær vikur og hringi svo – nei það er ekki komið, kemur ekki strax – ég sá tveggja vikna vinnuferð mína gufa upp. Bar mig illa og fékk biluðu tölvuna með mér, mátti bara ekki tengja hana við fire wire, allt í góðu.  

Á  leiðinni heim, í fríhöfninni ákvað ég að skoða flakkara, minnug hruns tveggja harðra diska nú í vetur. Fjárfesti í einum 400 GB, ekki málið kem heim og ætla nú að koma öllu mínu í öruggt skjól áður en ég fer með veiku tölvuna aftur til þjónustuaðilans. NEMA flakkarinn virkar ekki. Í dag fór ég svo í ELKÓ. Eftir að hafa skoðað hann, gáfu drengirnir þar út þá yfirlýsingu að hann væri dauður.  Fæ nýjan a.s.a.p. og tölvan er líka frá mér. Er á mínum gamla jálki sem ég sem betur fer var ekki búin að skila inn.   

 

Á ég að taka þetta sem skilaboð?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kristín mín, þetta er kannski góðfúsleg ábending um að nú sé orðið tímabært að taka sér smáhlé frá tækjunum ( sem ég þó veit að þú átt erfitt með)  Já, fyrst ég er nú komin hingað er ekki úr vegi að segja: Til hamingju með daginn í dag.

Elsa Þorfinna Dýrfjörð (IP-tala skráð) 28.6.2007 kl. 00:06

2 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Sæl og takk fyrir það, sýnist dagurinn minn ætla að byrja vel, en svo sko er ég búin að fá tölvuna úr viðgerð **) held að lífið verið náttúrulega einn tölvuleikur hér eftir

Kristín Dýrfjörð, 28.6.2007 kl. 00:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband