Ögurstund?

Hvað merkir stétt með stétt? Leikskólakennarar eru saman í stéttarfélagi með leikskólastjórum, grunnskólastjórum, grunnskólakennurum, framhaldskólakennurum og svo framvegis. Félagið þeirra er hins vegar deildarskipt og nú er deildin sem almennir leikskólakennarar eru félagar í á leið í verkfall. Ég á ekki von á öðru en félagar í hinum deildunum standi með sínu fólki, Leikskólabörn verði t.d. óvelkomin í grunn -  framhalds- og háskóla landsins á meðan á verkfalli stendur.

Rjúfa samstöðu 

Nú eru farnar að heyrast raddir um að leikskólastjórar ætli sumir að vera "embættismenn" og hlýða "ordrum" að ofan. Halda opnu í verkfalli og taka við börnum á deildir þar sem fólk er í verkfalli. Ég hef heyrt að sveitarfélögin séu að senda út slík fyrirmæli. Kannski finnst mér sárast að í sumum þessara sveitarfélaga eru við stjórnvölinn fólk sem er í flokkum sem á rætur sínar í verkalýðhreyfingunni. Skömm þeirra er meiri en hinna, sem ég býst ekki við nokkrum hlut af.

Í gær ræddi ég um skák, mér er hún enn hugleikin. Hver leikur kallar á andsvar og það er gott að hugleiða það áður en leikið er. Hvernig ætla þeir leikskólastjórar sem ekki standa með sínu fólki í verkfalli að "feisa" það eftir verkfall? Það er martröð flestra leikskólastjóra að reyna, eða þurfa að reka leikskóla án fagfólks. Þeir stjórar sem láta kúska sig til hlýðni, ég held að þeir megi eiga von á flótta síns fólks í þá leikskóla sem stjórar sýna manndóm og standa með sínu fólki. Hver vill hafa yfirmann sem hann treystir ekki?

Það er aðferðafræði viðsemjenda að reyna að sundra og rjúfa samstöðu þeirra sem eru í verkfalli. Sagan hefur sýnt okkur ótal dæmi um það. Búinn til ótti við atvinnumissi, við fjárhagslegt tjón og svo framvegis. Inn á þennan ótta spilar Sambandið nú. Stjórarnir eru líka veikir eftir atlögu borgarinnar og annarra sveitarfélaga að starfi þeirra undafarna mánuði. Þar sem stjórum hefur  verið sagt upp og skólar sameinaðir hægri, vinstri. Að sumu leiti virðast þeir eins og hræddar mýs í viðbrögðum sínum. Þeir  vita sem er að það er lítið mál að segja upp eins og einum stjóra.

Ef þeir treysta sér ekki til að standa með sínu fólki legg ég til að þeir "meldi" sig veika af hugarangri á meðan á verkfalli stendur.   

Þetta blogg er skrifað sem hvað ef, blogg. Sem svona versta mögulega sviðsmyndar atburðarrás. Ég persónulega á ekki von á öðru en stjórar standi með sínu fólki, að þeir láti ekki hræða sig til hlýðni og ég á ekki von á að undir rós hótanir um möguleg uppsagnarbréf hræði þá.

Stétt með stétt. Saman getum við náð árangri, það höfum við oft sýnt og munum vonandi halda áfram að sýna.

Uppfærsla kl. 15.oo

Nú hafa borist fregnir af því að Sambandið vilji ekki í slag og það muni senda út nú tilmæli á eftir. Jafnframt eru fleiri og fleiri leikskólar að setja á heimasíður sínar upplýsingar til foreldra um lokanir í verkfalli í samræmi við túlkun lögfræðings Kennarasambands Íslands. Áhyggjur af vondu sviðsmyndinni minni eru því aldeilis óþarfar. Og svo verður kannski líka bara samið um helgina :).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Til forráðamanna barna á leikskólum Hafnarfjarðar

  

Allt útlit er nú fyrir að boðað verkfall Félags leikskólakennara (FL) komi til framkvæmda n.k. mánudag.

Hafnarfjarðarbær mun í einu og öllu fara að leikreglum varðandi framkvæmd verkfallsins, komi til þess. 

 

Lagalegur ágreiningur er milli FL og Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem fer með málið f.h. sveitarfélaganna í landinu, um forsendur fyrir því að deildum leikskóla sé haldið opnum.  Leitað er leiða til að leysa þann ágreining og ef ekki tekst að ná samkomulagi um hann verður leitað úrskurðar félagsdóms.

 

Samkvæmt túlkun FL er ekki heimilt að halda opnum deildum þar sem deildarstjóri fer í verkfall.  Í Hafnarfirði eru allir deildarstjórar í FL og því verður engin deild opin á leikskólum Hafnarfjarðar á meðan verkfall stendur nema úrskurður um annað liggi fyrir.

 

Við vonum í lengstu lög að samningar takist áður en til verkfalls kemur og eru forráðamenn barna í leikskólum því hvattir til að fylgjast vel með fréttum af samningaviðræðum og tilkynningum á heimasíðu Hafnarfjarðar og viðkomandi leikskóla um þróun mála.

   

Virðingarfyllst,

 

Magnús Baldursson,

Sviðsstjóri fræðsluþjónustu/fræðslutjóri

Kristín Dýrfjörð, 18.8.2011 kl. 15:57

2 identicon

Garðabær ( veit ekki alveg hver skrifar undir það hvort það eru skólastjórarnir eða skrifstofan) er eftir minni bestu vitund líka búin að senda póst til foreldra þar sem þeim er tilkynnt að leikskólar verði lokaðir komi til verkfalls.

Kv Hulda Karen

hulda Karen (IP-tala skráð) 18.8.2011 kl. 20:38

3 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Það er fínt að sveitarfélögin átti sig.

Kristín Dýrfjörð, 18.8.2011 kl. 22:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband