Lýðræðisleg samræða stjóra

Í dag naut ég þeirra forréttinda að vera með á Þjóðfundi leikskólastjórnenda, ég var þar starfsmaður fundarins og fékk því að fylgjast með framkvæmd hans og framvinnu. Það er í raun stórkostlegt hvað vinnubrögðin og orkan sem skapast á þjóðfundum kemur fundargestum á óvart. Hvað þeir fá mikið út úr því að vera þar og hvað þeim finnast vinnubrögð og umræður verða markvissar. Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að taka þátt í allnokkrum þjóðfundum, félagsamtaka, stéttarfélaga svo ekki sé minnst á Þjóðfundinn 2009. Ég er oft spurð hver var niðurstaða þess fundar, hverju skilaði hann. Í mínum huga skilaði hann sjálfum sér og hann skilaði samfélagi okkar vinnubrögðum sem hafa nýst okkur til lýðræðislegrar samvinnu og samtals. Það er ekki svo lítið.

En hverju skilar fundurinn leikskólastjórnendum utan þess að marka og draga fram gildi félagsins og fyrir hvað það á að standa.  Ég heyrði marga ræða í dag að þetta væru vinnubrögð sem þeir vildu innleiða í sína skóla. Með aðferðinni gæfist þeim tækifæri til að ræða um námskrá og mat þannig að allir ættu eiga hlutdeild, börn, foreldrar og starfsfólk. Einn stjórinn sagðist hafa farið heim eftir undirbúningsfundinn í gær með kollinn svo fullan hugmynda að það hafi næstum truflað hennar daglega líf. Er það ekki merkilegur ávinningur?

Í Drögum að Aðalnámskrá leikskóla er fjallað um lýðræðisleg vinnubrögð. Skjali eins og aðalnámskránni er ætlaða að vera skrefi á undan því sem er, einhverju til að stefna að, því er ætlað að leiða til nýjunga. Þar segir:

Í leikskóla ber að undirbúa börn fyrir virka þátttöku í samfélaginu með því að skapa þeim tækifæri til að upplifa lýðræðisleg vinnubrögð og samskipti í daglegu starfi. Þannig öðlast þau skilning á því hvað lýðræði felur í sér, læra lýðræðisleg gildi og vinnubrögð og þróa með sér borgaravitund. Í leikskóla eiga foreldrar, starfsfólk og börn að vera samstarfsaðilar sem vinna saman og taka sameiginlegar ákvarðanir um leikskólastarfið.

Virða skal innsæi, reynslu, færni og skoðanir barna. Við skipulagningu og innra mat leikskólastarfs skal taka mið af sjónarmiðum þeirra barna sem þar eru. Þarfir og áhugi sem börn láta í ljós á fjölbreyttan hátt eiga að vera sá grunnur sem mótar umhverfi og starfshætti leikskólans.  Leikskóli þarf að vera vettvangur þar sem börn og starfsfólk:

  • Tekur virkan þátt í samræðum um lýðræðisleg málefni.
  • Hlustar hvert á annað og skiptist á skoðunum.
  • Tekur ábyrgð á sjálfum sér og gjörðum sínum.
  • Vinnur saman og aðstoðar hvert annað.
  • Hefur val um verkefni og vinnubrögð.
  • Hefur áhrif á leikskólastarfið.
  • Leitar að mismunandi lausnum

Það má sega að Þjóðfundarformið sé tilvalið til að vinna að ofangreindum markmiðum. Að leikskólar tileinki sér það til að tryggja aðkomu allra sem það varðar að mati og námskrágerð leikskólans er nokkuð.

Undanfarið hefur átt sér stað umræða um hverju börn ráði og hverju ekki. Það er ljóst að í leikskólum á að eiga sér samræða og samráð sem getur verið með ýmsu móti. Nýlega varði Anna Magnea Hreinsdóttir doktorsritgerð við Háskóla Íslands sem einmitt hafði það að viðfangsefni að rannsaka hverju börn réðu í leikskólum. Mikilvægt hugtak í nútímauppeldisfræði er valdefling. Valdefling barna er talin einn lykilinn að velferð og þroska barna. En valdefling felur ekki í sér ráðstjórn, hún felur sér að eiga hlutdeild í og hafa stjórn á eigin lífi og aðstæðum. Að nýta þjóðfundarformið í samræðu með börnum um leikskólastarfið er spennandi tækifæri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband